Innlent

Vetrarfærð í flestum landshlutum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hálkublettir eru á Hellisheiði og víða í uppsveitum á Suðurlandi.
Hálkublettir eru á Hellisheiði og víða í uppsveitum á Suðurlandi. mynd/vilhelm
Vegagerðin hefur sent frá sér tilkynningu vegna færðar á vegum. Áfram er hvöss NA-átt með vindhviðum allt að 30 m/s í Öræfum og undir Eyjafjöllum. Dregur talsvert úr vindi síðar í kvöld en hvessir þá NV-til. Vetrarfærð er í flestum landshlutum með nokkurri hálku eða hálkublettum.

Hálkublettir eru á Hellisheiði og víða í uppsveitum á Suðurlandi. Hálkublettir eru austan Þjórsá að Hvolsvelli. Á Vesturlandi eru hálkublettir á Bröttubrekku og á Fróðárheiði en annars eru vegir að mestu greiðfærir.

Hálka eða hálkublettir eru nú víða á Vestfjörðum, einkum á heiðum og hálsum og sumstaðar er einnig éljagangur. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hrafnseyrarheiði.

Á Norðurlandi eru vegir auðir vestan  Blönduóss en þar fyrir austan og í raun á öllu norðausturhorninu er hálka eða snjóþekja og víða éljagangur. Snjóþekja og snjókoma er á Öxnadalsheiðinni

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á Austurlandi. Snjóþekja og skafrenningur er á Fjarðarheiði og þæfingsfærð og skafrenningur er á Vatnsskarði eystra. Ófært er bæði um Breiðdalsheiði og Öxi. Á Suðausturlandi eru vegir auðir.

Þá er unnið að jarðvegsskiptum vegna lagfæringar á Álftanesvegi um 300 m norðan Garðaholtsvegar. Ekki er unnið í núverandi vegstæði en vinna nær inn í vegfláa að vestanverðu. Búast má við einhverjum truflunum vegna umferðar vinnuvéla og vörubíla. Vegfarendur eru því beðnir að sýna fyllstu aðgát og fylgja merkingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×