Fótbolti

Nýkomin úr heitri laug á fjöllum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir voru kátar í Vaxjö í gær.
Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir voru kátar í Vaxjö í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓSKARÓ
Tveir leikmenn í íslenska landsliðshópnum eiga enn eftir að spila sinn fyrsta landsleik en þetta eru þær Anna Björk Kristjánsdóttir og Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir sem báðar spila með toppliði Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna.

Anna Björk er 23 ára gömul og var valin í 23 manna hópinn en Soffía, sem er 25 ára, kom inn í hópinn þegar Katrín Ásbjörnsdóttir gat ekki verið með vegna meiðsla.

„Það var mjög góð stund þegar ég var valin. Ég var í vinnunni og það voru vinnufélagarnir sem voru að athuga þetta því ég þorði ekki því ég var svo stressuð. Svo heyrði ég bara öskur og ég öskraði bara líka,“ segir Anna brosandi um þegar hún frétti það að hún væri að fara á EM.

Aðeins aðra sögu er að segja af Soffíu.

„Ég var bara komin í útilegu og var stödd uppi á miðhálendinu. Ég var nýkomin upp úr heitri laug þegar ég fékk símtalið klukkan níu um kvöldið. Þá frestaði ég bara öllu og brunaði í bæinn,“ rifjar Soffía upp.

„Það er mikill heiður og þetta er mjög gaman,“ segir Soffía. „Ég var búin að stefna að þessu lengi þannig að það er gaman að vera komin hingað inn,“ segir Anna Björk.

En hefur engin nýliðabusun farið fram?

„Það er mjög vel tekið á móti okkur nýliðunum og ég bíð eiginlega eftir einhverjum hrekk,“ segir Soffía og Anna tekur undir það: „Ég held að það eigi eftir að koma stór bomba.“ Soffía er sammála. „Við eigum þetta eftir en vonandi verðum við teknar saman,“ segir Soffía.

„Þó að við séum ekki enn þá búnar að fá að spila þá eru æfingarnar skemmtilegar,“ segir Soffía.

„Þetta er góð gulrót og hvetur mann til að standa sig enn þá betur,“ segir Anna og Soffía bætir við: „Ég sætti mig ekki við það að vera á bekknum og verð að fara að setja pressu á þessar reynslumiklu í liðinu,“ segir Soffía í léttum tón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×