Íslenski boltinn

Garðar Örn safnar lögum í sólóplötu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Garðari Erni er margt til lista lagt.
Garðari Erni er margt til lista lagt. fréttablaðið/arnþór
„Ég er alltaf að semja eitthvað. Ég er búinn að vera lengur í tónlist en dómgæslu,“ segir einn besti knattspyrnudómari landsins, Garðar Örn Hinriksson.

Hann var söngvari í hljómsveitinni Url sem lagði upp laupana fyrir um tíu árum síðan. Hann var nú að gefa út lagið „Sjá“. Hugljúft lag sem sungið er af Heiðu Ólafs.

„Ég sendi þetta lag inn í Eurovision-keppnina en var hafnað. Fyrst þetta lag komst ekki inn þá hlýtur þessi undankeppni að vera sú besta í Evrópusögunni. Það getur ekki annað verið en lögin sem eftir eru séu stórkostleg því mitt lag er ekki lélegt,“ sagði tónskáldið hæverska, stolt af sínu lagi. „Mér fannst röddin mín ekki passa við þetta lag og Heiða gerir þetta frábærlega.“

Garðar, sem oft er kallaður Rauði baróninn meðal knattspyrnuunnenda, segir að draumurinn sé að gefa út sólóplötu með eigin efni.

„Ég á alveg efni í heila plötu en það er dýrt að taka upp og gefa út. Þó svo ég sé frábær dómari þá er ég enn þá betri söngvari og tónlistarmaður. Tónlist er mín ástríða,“ segir Garðar en hann hefur ekki fengið neina útvarpsspilun en vonar að nýja lagið muni hljóma á öldum ljósvakans.

Hinn marghami Garðar tók þátt í X-Factor keppninni á sínum tíma en komst ekkert allt of langt.

„Ég veit af hverju mér var hent út. Ég er ekki að segja að ég hafi verið besti söngvarinn en stuttu áður en mér var hent úr keppni var ég spurður hvort ég hefði verið í hljómsveit. Svo var ég næstur út. Ég skildi það ekki því Jógvan hafði verið í hljómsveitum í Færeyjum. Ég var fúll í hálftíma en svo gleymdi ég því,“ segir Garðar og bætir við að hann hafi aldrei horft á atvikið þegar hann er sendur heim.

Hér að neðan má hlusta á lagið Sjá. Lag og texti er eftir Garðar Örn. Heiða Ólafs syngur og Mamikó Dís Ragnarsdóttir leikur á píanó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×