Innlent

Heitir fundarlaunum fyrir Nuk: Köttur strauk úr einkaþotu

Kristján Hjálmarsson skrifar
Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hefur tekið þátt í leitinni að Nuk.
Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hefur tekið þátt í leitinni að Nuk. Mynd/Vilhelm
Hátt í tíu manns hafa leitað frá því snemma í morgun að kettinum Nuk sem slapp úr einkaþotu sem staðsett er á Reykjavíkurflugvelli.

„Við komum til Reykjavíkur í gærkvöldi og gistum á Hótel Natura. Kötturinn var hins vegar eftir í flugvélinni og við skildum hurðina eftir með lítilli rifu. Kötturinn virðist hafa sloppið út um hana,“ segir Susanne Alsing, frá Danmörku og eigandi kattarins.

Susanne var á leið til Bandaríkjanna og millilenti hér á landi þegar kötturinn hennar, hin fjögurra ára gamla læða Nuk slapp.

Nuk er svört með hvítri doppu á bringunni og bleika ól.

Félagar úr Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur hafa tekið þátt í leitinni.

„Þetta er nú ekki formlegt útkall hjá björgunarsveitinni en ég veit að það var haft samband við eina sveit og þeir eru að gera þetta á eigin vegum,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörgu.

Auk Flugbjörgunarsveitarinnar er héraðsdýralæknir og Matvælastofnun komin í málið þar sem Nuk hefur ekki farið í sóttkví eins og reglur kveða á um.

Nuk er örmerktur með númerinu 958–000–002–337–862. Hann er einnig húðflúraður í eyra með númerinu EFP055.

Þeir sem verða kattarins varir eru beðnir um að láta lögreglu eða héraðsdýralækni Matvælastofnunar í Suðvesturumdæmi strax vita, að því er segir í tilkynningu frá Mast.  Sími lögreglu er 112 og sími héraðsdýralæknis er 894-0240. Nuk ku vera styggur við ókunnuga. 

Mikilvægt er að kötturinn sé ekki tekinn inn á heimili þar sem dýr eru fyrir, að því er segir í tilkynningunni.

Eins og gefur að skilja er Susanne miður sín og heitir þeim sem finnur Nuk 100 þúsund krónum í fundarlaun.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um köttinn eru beðnir að láta Susanne vita í síma 0045-21724824.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×