Sport

Stórslagur í fjórðungsúrslitum á Wimbledon?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Nadal eftir sigurinn á Roland Garros.
Rafael Nadal eftir sigurinn á Roland Garros. Nordic Photos / Getty Images
Styrkleikaniðurröðun keppenda í einliðaleik karla á Wimbledon-mótinu í tennis var gefin út í morgun. Spánverjinn Rafael Nadal var settur í fimmta sætið.

Niðurröðunin er hönnuð til að þeir fjórir efstu geti ekki mæst fyrr en í undanúrslitum. en þetta þýðir að Nadal mun mögulega spila gegn Andy Murray, Novak Djokovic eða Roger Ferderer í 8-manna úrslitum.

Nadal var lengi frá vegna meiðsla en hefur unnið 43 af 45 viðureignum sínum síðan hann sneri til baka. Hann vann sigur á Opna franska meistaramótinu fyrr í þessum mánuði.

En mótshaldarar á Wimbledon styðjast við árangur í grasviðureignum síðustu tvö ár og þar sem að Nadal féll óvænt úr leik í annarri umferð Wimbledon-mótsins í fyrra var honum raðað í fimmta sætið nú.

Djokovic er í efsta sæti á undan þeim Murray og Federer. David Ferrer, sem tapaði fyrir Nadal í úrslitum Opna franska, er svo fjórði.

Niðurröðunin fyrir einliðaleik kvenna verður gefin út á föstudaginn en í morgun tilkynnti Venus Williams, fimmfaldur Wimbledon-meistari, að hún muni ekki taka þátt vegna bakmeiðsla. Mótið hefst á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×