Innlent

Einn í lífshættu eftir eldsvoða í Breiðholti

Fjórir voru fluttir á slysadeild eftir eldsvoða í fjölbýlishúsi í Breiðholti undir morgun  og eru tveir þeirra komnir á gjörgæsludeild. Annar þeirra er í lífshættu vegna brunasára og reykeitrunar, en hinn þarf að dvelja þar vegna reykeitrunar.

Hinir tveir verða væntanlega útskrifaðir í dag. Skelfing greip um sig meðal íbúa í húsinu, sem er við Írabakka 30, laust fyrir klukkan fimm í morgun þegar mikinn reyk tók að leggja um stigaganginn. Kallað var á slökkvilið og náðu sumir að forða sér út strax, en aðrir lögðu ekki í reykinn og lokuðust inni í íbúðum sínum og þéttu  dyrakarma fram á ganginn með blautum tuskum.

Slökkviliðið sendi þegar reykkafara inn í íbúðina, þar sem eldurinn logaði og voru fjórir sendir með sjúkrabílum á Slysadeild vegna reykeitrunar. Mikill eldur logaði í íbúðinni og hafði hann sprengt sér leið út um einn glugga. Tveir strætisvagnar voru sendir á vettvang til að hýsa fólkið sem yfirgaf heimili sín og verður því boðin áfallahjálp. Eldsupptök eru ókunn.

Allt tiltækt slökkvilið af höfuðborgarsdvæðinu tók þátt í slökkvistarfinu, en það var rétt að ljúka slökkvistarfi í verslunarmiðstöð við Eddufell, þegar tilkynnt var um Írabakkabrunann. Í Eddufellinu varð töluvert tjón, einkum í miðrými verslanasvæðisins, og þar eru eldsupptök líka ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×