Fótbolti

Hallbera búin að segja nei við fjögur félög

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir.
Hallbera Guðný Gísladóttir. Mynd/Daníel
Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona í fótbolta, ætlar að taka sér sinn tíma til að finna sér nýtt lið en hún hætti á dögunum hjá sænska liðinu Piteå þar sem hún hefur spilað undanfarin tvö ár.

„Ég hef ekkert ákveðið ennþá. Ég er búin að segja nei við fjögur lið í Noregi og Svíþjóð. Mér finnst norska deildin ekki alveg nógu spennandi. Það er ekki útilokað að ég komi heim en ég er ekki búin að ákveða það,“ sagði Hallbera við Fréttablaðið í gær.

Íþróttastjóri Piteå talaði um það á heimasíðunni að Hallbera væri líklega að fara heim í nám.  „Ég sagði bara við hann að ég ætlaði að breyta til að ef það væri á Íslandi þá færi ég örugglega í skóla. Það er samt ekki það sem mun stjórna ákvörðuninni," sagði Hallbera.

„Ég ætla að sjá hvað er í boði og ef það er eitthvað spennandi þá skoða ég það. Ef að það er eitthvað sem ég er ekki spennt fyrir þá er alveg eins gott að koma heim. Ég er með umboðsmann sem er að sjá um þetta og hann sendir reglulega á mig hvaða félög eru að tala við hann. Ég er búin að fá tilboð frá þremur liðum og fjórum með Piteå og ég er búin að segja nei við þau öll," sagði Hallbera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×