Innlent

Hunter líklega hræddur og svangur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hunter er svartur Border Collie með hvítum skellum.
Hunter er svartur Border Collie með hvítum skellum. MYND/MAST
Leit að hundinum Hunter, sem slapp úr flutningsbúri á Keflavíkurflugvelli síðastliðinn föstudag, hófst klukkan níu í morgun. Talið er að hundurinn haldi sig á utanverðum Suðurnesjum og líklegt er að hann leiti í mannabústaði að mat og hlýrri hönd, að því er fram kemur í tilkynningu frá Matvælastofnun. Verði fólk hundsins vart er það beðið um að hafa tafarlaust samband við lögreglu.

Hundurinn er blíður heimilishundur að sögn eiganda og í lagi er að reyna að laða hann til sín með mat en þá þarf að hafa tiltæka ól og taum til að setja á hann eða möguleika á að loka hann inni. Þó er mikilvægt að gæta þess að hann komist ekki í snertingu við hunda eða önnur gæludýr og nauðsynlegt er að þrífa og sótthreinsa allt það sem hundurinn kemst í snertingu við.

Hunter er svartur Border Collie með hvítum skellum. Verið var að flytja hann yfir Atlantshafið en þurfti að millilenda hér á landi. Þegar verið var að flytja hann yfir í aðra flugvél opnaðist búrið og slapp hann í kjölfarið. Málið er litið mjög alvarlegum augum því strangar reglur gilda um innflutning hunda til Íslands og er tilgangur þeirra að tryggja eins og best verður á kosið að ekki berist til landsins ný smitefni.

Eigandi hundsins hefur boðið hverjum þeim sem hann finnur 200 þúsund krónur í fundarlaun og hefur Icelandair boðið tvo flugmiða fyrir þann sem hundinn handsamar.

Þeir sem finna hundinn geta fengið nánari leiðbeiningar hjá Matvælastofnun í síma 530-4800. Símanúmer lögreglunnar á Suðurnesjum er 420-1800.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×