Íslenski boltinn

Stoðsendingaþrennur í tveimur leikjum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli og Ólafur eru iðnir við að mata félaga sína.
Atli og Ólafur eru iðnir við að mata félaga sína. fréttablaðið/daníel
Það eru fjórar umferðir og tveir leikir eftir af Pepsi-deild karla og enn hefur engin þrenna litið dagsins ljós í deildinni í sumar. FH-ingar hafa aftur á móti boðið upp á aðeins öðruvísi þrennur í síðustu tveimur leikjum sínum.

FH-liðið hefur unnið þrjá síðustu leiki sína en í þeim tveimur síðustu hefur liðið skorað samtals sjö mörk og þar hafa tveir menn farið á kostum við að spila uppi samherja sína.

Atli Guðnason og Ólafur Páll Snorrason hafa lagt upp ófá mörkin í úrvalsdeild karla í gegnum tíðina og sýndu í þessum tveimur leikjum á móti nýliðum Víkinga og Fjölnis að þeir ætla sér einnig að berjast um stoðsendingatitilinn í ár. Ólafur Páll vann hann í fyrra og Atli árið á undan.

xx
Síðasta sunnudag fylgdi Atli nefnilega eftir afreki Ólafs Páls í leiknum á undan og gaf þrjár stoðsendingar í sama leiknum.

Ólafur Páll Snorrason átti þrjár stoðsendingar í 3-2 sigri á Víkingum en lagði upp mörk fyrir Ingimund Níels Óskarsson og Atla Viðar Björnsson auk þess að síðasta markið var sjálfsmark Víkinga eftir fyrirgjöf hans. Öll þessi mörk komu eftir fyrirgjafir frá Ólafi Páli.

Atli Guðnason átti þrjár stoðsendingar í 4-0 sigri á Fjölni á sunnudagskvöldið en auk þess þá skoraði Atli fjórða markið sjálfur. Atli átti þar fyrst stoðsendingu á Ingimund Níels og svo tvær stungusendingar inn á Steven Lennon en öll mörkin komu eftir að Atli fann sér pláss á milli miðju og varnar og sprengdi síðan upp varnarlínu Grafarvogsliðsins með hnitmiðaðri sendingu.

Þetta voru þó ekki fyrstu stoðsendingaþrennur sumarsins því Fjölnismaðurinn Ragnar Leósson lagði upp þrjú mörk í sigri Fjölnisliðsins á Þór í lok júlí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×