Holland tapaði sem frægt er orðið gegn Íslandi á Laugardalsvellinum á mánudagskvöldið, en hollenska liðið hefur tapað þremur af fjórum fyrstu leikjum sínum undir stjórn Guus Hiddink, sem tók landsliðinu af Louis van Gaal eftir HM í sumar. Hiddink gerði samning fram yfir EM 2016, en eftir það tekur Danny Blind, annar af aðstoðarþjálfurum Hollands, við liðinu.
Vlietstra segir að þessi tvö ár undir stjórn Hiddinks hefðu átt að vera viðeigandi lokapunktur á ferli hans, eftir erfið ár að undanförnu.
„Þetta átti að vera fullkomin leið til að enda ferilinn,“ segir Vlietstra í upphafi greinarinnar.
„Síðustu ár hafa verið erfið hjá Hiddink (Rússland komst ekki á HM 2010, Tyrklandi mistókst að tryggja sér sæti á EM 2012 og hlutirnir gengu ekki upp hjá milljarðaliði Anzhi Makhachkala) en þau áttu að falla í gleymskunnar dá, að því gefnu að hann næði góðum árangri með Holland á EM 2016.“
Vlietstra segir að hollenska liðið hafi litið vel út þegar Hiddink tók við því, enda var Holland nýbúið að vinna til bronsverðlauna á HM í Brasilíu, og framtíðin virtist björt.
Ungir leikmenn á borð við Daryl Janmaat (Newcastle), Stefan de Vrij (Lazio), Bruno Martins Indi (Porto) og Daley Blind (Manchester United) voru nýgengnir til liðs við stór lið í sterkum deildum og aðrir ungir leikmenn eins og Jordy Clasie (Feyenoord), Memphis Depay og Georginio Wijnaldum (PSV) voru teknir við leiðtogahlutverkum hjá félagsliðum sínum.

„Fjölmiðlarnir voru einnig á bandi Hiddink. Á meðan Van Gaal deildi við þá og hunsaði er Hiddink alltaf fullkominn herramaður, sem gefur þeim efni til að vinna með og býður þeim jafnvel upp á hótel að spjalla með stóran vindil í hönd,“ segir Vlietstra í greininni.
Hlutirnir hafa hins vegar ekki gengið jafn vel og ætla mætti. Holland tapaði fyrsta leik sínum undir stjórn Hiddink, æfingaleik gegn Ítalíu, og hollenska liðið tapaði einnig fyrir Tékklandi í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2016. Naumur sigur á Kasakstan vannst svo áður en að tapinu fyrir Íslandi kom.
Hiddink breytti um leikaðferð frá tíma Van Gaal (úr5-3-2 í 4-3-3) og andrúmsloftið breyttist í hollenska hópnum. Wesley Sneijder, leikmaður Galatasary, lýsti Van Gaal sem ströngum kennara, en Hiddink sem vinalegum frænda.
Þessar breytingar hafa ekki virkað, allavega ekki hingað til. Holland hefur ekki náð góðum úrslitum og ágreiningur - sem er ekki óalgengur hjá hollenskum liðum - kom upp á milli framherjanna Van-Persie og Klaas-Jan Huntelaar eftir leikinn gegn Kasakstan.
Vlietstra bendir einnig á að Holland treysti um of á Robben og að Hiddink hafi viðurkennt að líkamlegt ástand hollenskra leikmanna sé ekki nógu gott.
Grein Vlietstra má lesa í heild sinni hér.