Innlent

Mikilvægt að lögreglan fái ítarlegar upplýsingar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Foreldrar barna í Laugarnesskóla eru uggandi en í gær reyndi maður að tæla tvo drengi í fyrsta bekk upp í bíl til sín við skólann á skólatíma. Þetta er annað málið af þessum toga sem kemur upp í hverfinu í þessum mánuði.

Maðurinn reyndi að fá drengina upp í bíl til sín með því að bjóða þeim sælgæti. Foreldrar barna við skólann fengu póst í morgun þar sem fram kemur að maðurinn hafi verið á rauðum bíl og drengirnir hafi neitað að fara með manninum. Atvikið átti sér stað í frímínútum, við Kirkjubraut að því er talið er. Lögreglan var að sjálfsögðu látin vita og hefur hún aukið vakt við skólann.

Fyrr í mánuðinum reyndi maður að tæla sjö ára gamlan dreng upp í bíl við Álftamýri.

„Við höfum alltaf áhyggjur þegar við fáum þessar tilkynningar og vinnum síðan úr þeim eins og við mögulega getum en þær hafa nú ekki alltaf leitt okkur langt og oft eru upplýsingar af mjög skornum skammti,“ segir Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Foreldrar barna við skólann hafa að vonum áhyggjur en kennari fyrsta bekkjar sem við ræddum við í dag, segir mikla áherslu lagða á forvarnir. Börnin komi vel undirbúin úr leikskólunum og viti hvernig þau eigi að bregðast við.

„Börn þurfa að tilkynna um þetta, taka niður það sem þau verða áskynja með og það er mjög mikilvægt að foreldrar reyni að skrá niður eftir þeim. Við skoðum allar tilkynningar og biðjum fólk um að reyna að vanda þær og gefa okkur eins ítarlegar upplýsingar og kostur er,“ segir Árni.

Hann segir óvitað hvort málið tengist öðrum af sama toga en rannsókn muni væntanlega leiða það í ljós.

Hvernig geta foreldrar brugðist við og undirbúið börnin sín?

„Fræðsla er lykilatriði, að börnin séu með það alveg á hreinu, eins og virðist vera gjarnan í dag, að þau eigi ekki að þiggja far hjá ókunnugu fólki eða þiggja af því sælgæti eða neitt slíkt. Jafnframt þurfa þau, ef þau verða fyrir einhvers konar áreiti, að geta látið foreldrana vita.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×