Innlent

Telja dóm í Al Thani-máli vega að stoðum réttarríkisins

Jakob Bjarnar skrifar
Jónas Þór Guðmundsson er formaður Lögmannafélags Íslands, sem gerir alvarlegar athugasemdir við klásúlu í Al Thani-dómnum.
Jónas Þór Guðmundsson er formaður Lögmannafélags Íslands, sem gerir alvarlegar athugasemdir við klásúlu í Al Thani-dómnum.
Lögmannafélag Íslands hefur sent frá sér harðorða ályktun vegna dóms sem féll í desember á síðasta ári í því sem kallast Al Thani-málið, þar sem segir meðal annars: „Sé verjendum sakborninga meinað um þennan rétt er stórlega vegið að grundvallarreglunni um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og jafnræði málsaðila.“

Lögmannafélagið vísar til klásúlu í dómi þar sem fundið er að því að fjögur vitni hafi átt fund með verjendum hinna ákærðu. Það er talið aðfinnsluvert og meðal annars til þess fallið að rýra trúverðugleika vitna. Símon Sigvaldason er dómsformaður, í fjölskipuðum dómi þriggja dómara.

Lögmannafélagið gerir alvarlegar athugasemdir við þessi orð. Jónas Þór Guðmundsson er formaður Lögmannafélags Íslands og hann útskýrir fyrir blaðamanni Vísis að það sem um er að ræða er að þessi aðfinnsla í héraðsdóminum bendi til þess að lögmenn megi bara alls ekki ræða við vitni, ólíkt ákæruvaldinu, og að ekki sé ljóst hvað nákvæmlega felst í henni? Hvort þetta gildi almennt um öll vitni eða hvort það séu einhverjar frekari takmarkanir á því? Hvort þetta eigi við í einhverjum sérstökum tilvikum eða ekki?

„Þessi athugasemd er mjög víðtæk og veldur vafa um það hvernig lögmenn mega bera sig að, að því er varðar sína vinnu við vörn dómsmála, ekki eingöngu þessa tiltekna dómsmáls heldur allra annarra sakamála líka, þegar kemur að vitnum og framburði þeirra,“ segir Jónas Þór. Spurður hver hann sjái fyrir sér sem næstu skref málsins segir hann: „Fyrst og fremst er nauðsynlegt að hæstiréttur taki afstöðu til þessarar aðfinnslu í héraðsdóminum. Og skýri réttarstöðuna er þetta varðar. Hugsanlega þarf að huga hér að lagabreytingum til þess að skýra sakamálalögin hvað þetta snertir.“

Meðfylgjandi er ályktun Lögmannafélags Íslands í heild sinni:

„Lögmannafélag Ísland

Ályktun stjórnar Lögmannafélags Íslands

Þann 12. desember 2013 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli nr. S-127/2012, svokölluðu Al-Thani máli. Í niðurstöðu dómsins segir m.a.:

„Við aðalmeðferð málsins kom fram að fjögur vitni hefðu átt fund með verjendum ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs, fyrir aðalmeðferð málsins og þau kynnt sér gögn málsins á skrifstofu verjenda. Samkvæmt 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 kynnir dómari ekki fyrir vitni skýrslur þess hjá lögreglu eða önnur sýnileg sönnunargögn fyrr en dómara þykir þess þörf til skýringar eða leiðréttingar skýrslu þess. Með því að ræða við vitnin fyrir aðalmeðferð máls og sýna þeim sýnileg sönnunargögn er farið á svig við greind lagafyrirmæli, auk þess sem sú háttsemi var til þess fallin að rýra trúverðugleika vitnanna, sbr. 7. tl. 122. gr. laga nr. 88/2008. Þetta er aðfinnsluvert.“

Þessi niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur kemur stjórn Lögmannafélags Íslands verulega á óvart og telur stjórn félagsins hæpið að túlkun dómara á tilvísuðu lagaákvæði standist. Samskipti verjenda við vitni er mikilvægur þáttur við undirbúning málsvarnar og ósjaldan eina leið verjanda til að fá upplýsingar um atvik máls. Af fyrri réttarframkvæmd má ráða að ákæruvaldið hefur rætt við vitni og kynnt þeim sönnunargöng áður en skýrslugjöf fer fram fyrir dómi undir aðalmeðferð máls. Sé verjendum sakborninga meinað um þennan rétt er stórlega vegið að grundvallarreglunni um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og jafnræði málsaðila.

Ljóst er að sú réttaróvissa sem uppi er um stöðu aðila og vitna í kjölfar niðurstöðu í umræddu máli er mjög bagaleg og getur haft veruleg áhrif á þau sakamál sem nú eru til meðferðar fyrir dómsstólum. Þessari réttaróvissu verður að eyða án tafar, þar sem núverandi staða er til þess fallin að rýra trúverðugleika réttarkerfisins og þar með réttarríkisins.

Stjórn Lögmannafélags Íslands“


Tengdar fréttir

Allir sakborningar áfrýja niðurstöðu í Al-Thani máli

Allir sakborningar í Al-Thani málinu ætla að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Málsvarnarlaun sem Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings var dæmdur til að greiða verjanda sínum við í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani málinu eru hæstu málsvarnarlaun sem dæmd hafa verið í sakamáli hér á landi.

Ragnar og Gestur misbuðu virðingu dómsins

Lögmennirnir Ragnar H. Hall og Gestur Jónsson fengu eina milljón króna í réttarfarsekt hvor fyrir að segja sig af tilnefnislausu frá Al-Thani málinu sem verjendur sakborninga við dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi í dag.

Dómur í Al-Thani máli í dag - allt sem þú þarft að vita

Dómur verður kveðinn upp í Al-Thani málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag kl. 15. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings og aðrir sakborningar í málinu gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi.

Gestur segir réttarfarssekt "óskiljanlega“ - hafa báðir áfrýjað

Lögmennirnir Ragnar Hall og Gestur Jónsson sem dæmdir voru til réttarfarssektar fyrir að segja sig frá málinu á fyrri stigum og fyrir að misbjóða virðingu Héraðsdóms Reykjavíkur hafa þegar áfrýjað þeirri refsingu sem þeir fengu í dómnum til Hæstaréttar.

Al-Thani málið: Þungir fangelsisdómar yfir Kaupþingsmönnum

Dómur var kveðinn upp í Al-Thani málinu nú rétt í þessu. Sakborningar fengu eftirtalda dóma: Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, fimm ár og hálft ár. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, fimm ár. Ólafur Ólafsson, fjárfestir, 3 og hálft ár. Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg 3 ár.

Al Thani dómarnir vekja víða athygli

Dómarnir yfir Kaupþingsmönnunum sem féllu í héraðsdómi í gær hafa vakið töluverða athygli út fyrir landsteinana. Margir af stærstu miðlum heims hafa fjallað um málið og má þar nefna BBC, Financial Times, Bloomberg og the Wall Street Journal.

Ólafur áfrýjar Al-Thani dómnum

ÓIafur Ólafsson, einn hinna ákærðu í Al-Thani málinu mun áfrýja dómi héraðsdóms Reykjavíkur til hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×