Þrír fjórðu landsmanna vill að kosið verði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Fjörtíu og níu prósent er hins vegar andvíg inngöngu Íslands í sambandið.
Niðurstöður nýrrar könnunar Stöðvar 2 og Fréttablaðsins um afstöðu landsmanna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið voru kynntar í nýjum þætti Mikaels Torfasonar, Mín skoðun, á Stöð 2 í dag.
74,6 prósent þeirra sem tóku afstöðu vilja að greidd verði atkvæði samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, en 25,4 prósent vilja það ekki.
Konur eru heldur hlyntari atkvæðagreiðslunni, eða 77 prósent borið saman við 72 prósent karla, en 28 prósent þeirra vilja ekki slíka atkvæðagreiðslu og 23 prósent kvenna vilja það ekki heldur.
65 til 85 prósent stuðningsmanna stjórnmálaflokkanna vilja að kosið verði um viðræðurnar næsta vor. 85, prósent þeirra sem myndu kjósa Bjarta framtíð, 69 prósent kjósenda Framsóknarflokksins, 65 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins, 81 prósent kjósenda Samfylkingarinnar, 66 prósent kjósenda Vinstri grænna og 84 prósent kjósenda Pírada.

Lítill munur er á afstöðu fólks eftir aldri.

