Erlent

ESB torveldar framkvæmd dauðarefsinga í Bandaríkjunum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Útbúnaður fyrir aftökusveit í ríkisfangelsinu í Draper í Utah.
Útbúnaður fyrir aftökusveit í ríkisfangelsinu í Draper í Utah. Vísir/AP
Í Bandaríkjunum hefur lengi verið skortur á banvænum lyfjum sem notuð hafa verið til að taka dauðadæmda fanga af lífi. Ástæða skortsins er einkum sú að Evrópusambandið hefur nú í níu ár bannað útflutning á vörum sem notaðar eru við aftökur.

Fyrir vikið hefur hvert ríki Bandaríkjanna af öðru tekið að velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að grípa til annarra og gamalkunnugra ráða þegar taka á fólk af lífi. Kallaðar verði til aftökusveitir, rykið dustað af rafmagnsstólum eða gasklefar aftur teknir í notkun.

Tilraunir með að nota lyf, sem lítil reynsla er komin af, hafa nokkrum sinnum endað með ósköpum og komist fyrir vikið á forsíður dagblaða. Í síðasta mánuði stóð dauðastríð Dennis McGuire yfir í 26 mínútur eftir að yfirvöld í Ohio dældu inn í æðar hans áður óreyndri lyfjablöndu. Og síðustu orð fanga eins í Oklahoma, sem tekinn var af lífi 9. janúar, voru: Ég finn allan líkamann brenna.

Í frétt um málið frá AP fréttastofunni segir að Evrópuríki séu alræmd fyrir að vera ósammála um næstum því öll stefnumál, en hvað þetta mál varðar standi þau þétt saman.

„Pólitískt hlutverk okkar er að þrýsta á um afnám dauðarefsingar, ekki að auðvelda framkvæmd hennar,” hefur AP eftir Börbru Lochbihler, formanni mannréttindanefndar Evrópuþingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×