Innlent

Strætó skoðar aðgerðir eftir árás á vagnstjóra

Jakob Bjarnar skrifar
Hættulegar aðstæður sköpuðust þegar ráðist var á vagnstjóra strætisvagns sem var á ferð.
Hættulegar aðstæður sköpuðust þegar ráðist var á vagnstjóra strætisvagns sem var á ferð.
Ráðist var á Bessem Aref vagnstjóra um helgina þar sem hann var að aka strætisvagni sínum frá Hamraborg niður Kringlumýrarbraut. „Þarna sköpuðust stórhættulegar aðstæður,“ sagði Bessem Aref, vagnstjóri en vagninn var á mikilli ferð þegar árásin átti sér stað. „Ég notaði bara vinstri hendina á stýrið og hægri til þess að halda honum frá mér.“ Vísir greindi frá málinu í gær en ástæða árásarinnar var sú að Bessem hafði neitað öðrum manni um far með vagninum vegna þess að sá maður vildi ekki borga fullt fargjald og kostaði það Bessem auk árásarinnar ókvæðisorð á borð við „helvítis útlendingur.“

Skermun og eftirlitsmyndavélar

Reynir Jónsson er framkvæmdastjóri Strætó og hann segir menn þar líta þetta atvik mjög alvarlegum augum og sé það nú til ítarlegrar skoðunar. Hann segir tvennt í stöðunni, sem þeir hjá Strætó eru að skoða, sem er að setja upp eftirlitsmyndavélakerfi sem og að skerma vagnstjórana alfarið af. Þetta séu leiðinlegar ráðstafanir að grípa til því menn vilja halda í þá hugmynd að Ísland sé tiltölulega friðsælt land. „Þetta eru neyðarráðsstafanir sem við erum ekkert rosalega skotin í. Það að stöðugar upptökur í gangi gerir okkur að sjá nákvæmlega hvað gerist.“

Reynir Jónsson hjá Strætó.
Reynir segir þetta líkast til lið í stærra og djúpstæðara vandamáli. „Það er eitthvað í gangi sem veldur þessu. Þetta er kannski svipað og með konuna sem varð fyrir aðkasti í sundlaugunum. Af því að hún var feitlagin. Ef þú ert feit, þá ertu annars flokks og mátt búast við því að verða fyrir aðkasti. Ef þú ert útlendingur, þá ertu annars flokks og mátt búast við því að verða fyrir aðkasti. Ég hef náttúrlega ekki rannsakað þetta né hef ég þekkingu til að greina af hverju þetta er sprottið. En fordómar hafa náttúrlega verið til, það er ekkert nýtt að ráðist sé á fólk af því að það er öðru vísi.“

Þjálfaðir til að bregðast við ógnandi hegðun

Sem betur fer er þetta afar sjaldgæft en atvikin sem þó koma upp eru frá því að vagnstjórar þurfi að sitja undir hastarlegum athugasemdum yfir í að vera hreinar og klárar líkamsárásir. „Við höfum, í samstarfi við lögregluna, þjálfað okkar fólk í að bregðast við æstum farþegum og ógnandi hegðun.“ Reynir segir að þó menn séu tvístígandi varðandi frekari skermun sé sú spurning alltaf til staðar, hvort menn vilji bíða eftir því að fyrsti vagnstjórinn verði fyrir alvarlegum skaða. „Hvenær er rétti tíminn til að taka slíka ákvörðun? Því er erfitt að svara.“


Tengdar fréttir

„Hann kallaði mig helvítis útlending“

Farþegar í strætisvagni frá Hamraborg og niður Kringlumýrarbraut urðu vitni að vægast sagt leiðinlegu atviki þegar einn farþeganna réðst á vagnstjórann á miðri ferð strætisvagnsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×