Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Fram - Keflavík 1-1 | Höfuðmeiðsli og rautt spjald í Dalnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vísir/Daníel
Fram og Keflavík sættust á skiptan hlut í fyrsta leik sumarsins á þjóðarleikvanginginum í Pepsi-deild karla.

Jóhann Birnir Guðmundsson kom Keflavík yfir á tíundu mínútu og Ingiberg Ólafur Jónsson jafnaði metin fyrir Fram skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Snemma í síðari hálfleik var Árni Freyr Ásgeirsson, markvörður Keflavíkur, borinn af velli og fluttur á sjúkrahús eftir að haf hlotið slæm höfuðmeiðsli og rotast.

Ingiberg Ólafur fékk svo að líta rauða spjaldið í lokin en gestirnir úr Reykjanesbæ náðu ekki að færa sér liðsmuninn í nyt.

Bæði lið byrjuðu í leikkerfinu 4-3-3, en Orri Gunnarsson var ekki með hjá Fram. Ingiberg Ólafur kom inn í liðið í hans stað og fór beint í bakvörðinn. Hann átti heldur betur eftir að láta til sín taka.

Hjá Keflavík voru þrjár breytingar frá jafnteflinu gegn Fjölni í síðasta leik. Jonas Sandqvist var ekki með vegna meiðsla og þeir Halldór Kristinn Halldórsson og Magnús Sverrir Þorsteinsson fengu sér sæti á bekknum. Árni Freyr fór í markið, Endre Ove Brenne fór í vörnina og Elías Már Ómarsson á kantinn.

Fyrri hálfleikur var nokkuð fjörugur. Keflvíkingar byrjuðu betur og komust verðskuldað yfir eftir ellefu mínútna leik. Þeir voru sterkari í upphafi leiks, en með tíð og tíma rönkuðu heimamenn við sér í sínum fyrsta leik á tímabilinu í Laugardal.

Keflvíkingar fóru mikið upp vængina og það virkaði vel í fyrri hálfleik. Bakverðir Framara voru í tómum vandræðum í upphafi leiks, en þeim óx ásmegin í leiknum. Ingiberg Ólafur jafnaði metin fyrir Framara rétt fyrir hálfleik eftir darraðadans eftir hornspyrnu og þannig var staðan í hálfleik.

Í síðari hálfleik var mikið jafnræði með liðunum. Bæði lið áttu nokkrar flottar sóknir, en besta færið fékk varamaðurinn Haukur Baldvinsson þegar hann slapp einn inn fyrir, sólaði Árna Frey í markinu og setti svo boltann á óskiljanlegan hátt í stöngina.

Ingiberg Ólafur fékk svo reisupasann þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum og bæði lið freistuðu þess að skora sigurmarkið. Allt kom fyrir ekki og liðin skiptu stigunum bróðurlega á milli sín í leikslok. Jafntefli niðurstaðan eftir nokkuð bragðdaufan síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur var mun fjörugri en sá síðari. Lítið sem ekkert gerðist í síðari hálfleik og afar fáir sem sköruðu fram úr.

Svarti bletturinn á þessum leik í Laugardal voru alvarleg meiðsli Árna Freys, markvarðar Keflavíkur, en hann meiddist þegar Haukur klikkaði dauðafærinu. Ekki sást nægilega vel úr blaðamannastúkunni hvað gerðist, en um alvarleg höfuðmeiðsli var að ræða og kallað var eftir lækni úr stúkunni til að hjálpa sjúkraþjálfurum liðanna.

Kristján: Hann er í lagi

„Miðað við leikinn þá tel ég að útkoman sé hæfileg. Sóknarleikurinn var ekki nógu markviss, sérstaklega ekki í síðari hálfleik, en varnarleikurinn var fínn. Fyrri hálfleikurinn var jafn og ætli jafntefli sé ekki sanngjörn niðurstaða," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, við fjölmiðla í leikslok.

„Við vönduðum okkur ekki nægilega vel í sóknarleknum. Hvorki þegar við vorum jafnmargir, né einum fleiri. Það var sorglegt að sjá hvernig við létum boltann fara frá okkur til Framarana."

„Við vorum ekki einu sinni að ná að klara sóknirnar okkar á markið. Það komu tvær til þrjár tilraunir í lokin, en ekki mikið meir."

Jonas Sandqvist var ekki í marki Keflavíkur í kvöld, en Kristján útskýrði fjarveru hans: „Hann er í góðu standi. Hann er bara í einkaerindum erlendis og það er ekkert sem við ráðum við. Hann verður mættur í næsta leik. Það verður ekkert vandamál," sem vildi ekki gefa upp hvað hann væri að gera erlendis.

„Nei, nei, það er hans mál."

Árni Freyr Ásgeirsson kom í markið í stað Jonasar og stóð sig með prýði þangað til hann þurfti að fara af velli vegna þungs höfuðhöggs. Kristján sagði að í lagi væri með Árna: „Hann fékk högg á gagnaugað eftir samstuð við Unnar (varnarmann Keflavíkur). Það var farið með hann beint uppá spítala og við vorum að fá þær fregnir að hann er í lagi. Hann rotaðist og það er verið að tjasla honum saman. Hann fær vonandi að fara heim í kvöld," sagði Kristján að lokum við fjölmiðla.

Bjarni: Úr varð spjaldasúpa

„Við vorum miklu betri í síðari hálfleik en þeim fyrri. Við eigum nokkur mjög góð færi og síðan eigum við nokkrar sóknir sem við eigum að nýta okkur betur á síðasta þriðjungnum," sagði glæsilega klæddur þjálfari Framara, Bjarni Guðjónsson, eftir leik.

„Við lendum í því að missa mann útaf. Þá fer maður að hugsa síðustu tíu mínúturnar að maður sé ánægður með eitt stig, en ég hefði viljað vera búinn að klára leikinn þar."

Guðmundur Ársæll dómari leiksins spjaldaði gulum spjöldum í gríð og erg. Þau urðu alls níu talsins og skildi Bjarni ekki afhverju þau urðu svona mörg.

„Þetta var hörkuleikur. Gulu spjöldin voru fjölda mörg. Mér fannst þessi leikur ekki grófur leikur, en af eitthverjum ástæðum byrjaði dómarinn að henda spjöldum hér og þar. Þegar þú byrjar að henda spjöldum snemma, þá þarftu að klára leikinn þannig og úr varð þessi spjaldasúpa."

„Ég get ekki sagt til um það fyrr en á morgun. Sjúkraþjálfarinn er að skoða þá núna og vonandi verða þeir ekki lengi frá," aðspurður út í meiðslin hjá Viktori Bjarka og Jóhannesi Karli.

Ingiberg Ólafur fékk rautt spjald þegar tíu mínútur voru til leiksloka og sagði Bjarni að hann hefði haldið að Ingiberg hafi tekið boltann.

„Hann hefði kannski ekki átt að renna sér. Ég held að hann hafi bara farið í boltann, án þess að hafa séð þetta aftur. Úr varð svona hörkutækling, en á Englandi myndu menn bara segja „play on" eins og maðurinn sagði. Stundum fer þetta svona."

Framarar eru komnir með sex stig og aðspurður hvort þeir hefðu átt að vera með fleiri svaraði Bjarni: „Það geta öll lið litið til baka og sagt að þarna hefðum við átt að taka fleiri stig og annað. Við erum komnir með 6 stig og þetta er langhlaup. Það er stígandi í leik liðsins og leikurinn gegn KR var fínn. Fyrri hálfleikurinn hérna í kvöld var ekki nægilega kraftmikill, en í síðari hálfleik komum við miklu sterkari inn í leikinn," sagði Bjarni í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×