Íslenski boltinn

Kristján: Hvet alla til að fara á völlinn og horfa á Aron spila fótbolta

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Aron Elís Þrándarson.
Aron Elís Þrándarson. vísir/GVA
„Liðin voru að spila um að komast í þriðja sæti og það var Víkingur sem tryggði sér það með því að vinna okkur nokkuð örugglega í kvöld,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur.

„Við byrjum leikinn mjög illa og eigum erfitt með að koma okkur inn í hann en okkur tekst það undir lokin með að skora gott mark og erum ágætir í upphafi seinni hálfleiks en svo fjaraði undan okkur.

„Við reyndum að pressa og færa liði ofar eftir að við lentum 2-1 undir en það þýddi bara að við fengum á okkur þriðja markið,“ sagði Kristján en þetta var annað tap Keflavíkur í röð en í millitíðinni tryggði liðið sér sæti í undanúrslitum bikarsins.

„Það vantar stöðugleika. Við þurfum að vera með kveikt á öllu á milli leikja og nokkra leiki í röð.“

Kristján Guðmundsson fór fögrum orðum um frammistöðu Arons Elís Þrándarsonar eftir leikinn og naut þess að horfa á hann spila eins og aðrir sem á leikinn horfðu.

„Aron Elís vann þennan leik. Það var frábært að sjá hann spila og það er ekki annað hægt en að vera ánægður og glaður að sjá strákinn spila fótbolta á Íslandi. Ég hvet alla til að fara á völlinn og horfa á hann á meðan hann er á landinu. Hann spilaði fantagóðan leik og við réðum ekkert við hann á miðjunni.“

Keflavík er með 16 stig eftir fyrri umferðina og var sigri í kvöld frá því að lyfta sér í þriðja sæti deildarinnar.

„Fyrir mótið setjum við það upp að vera fyrir ofan miðjustrikið og við höfum verið það allt mótið. Leikurinn var upp á það að komast í þriðja sætið á markatölu og það tókst ekki og núna erum við að dragast aftur nær miðjumoðinu og við höfum engan áhuga á því.

„Við þurfum að sýna betur, leik eftir leik, hvað það er sem kom liðinu í þessa stöðu. Við erum með hluti í liðinu sem virka vel og geta unnið leiki eins og þennan. Við þurfum bara að vera með kveikt á öllu og við getum það. Við komum til baka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×