Erlent

Höfuð álsins aldna fannst í frystinum

Atli Ísleifsson skrifar
Állinn á myndinni tengist fréttinni ekki beint.
Állinn á myndinni tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Sérfræðingarnir sem leituðu að höfði álsins sem hafði verið 155 ár í brunni á Skáni og fannst dauður í síðustu viku, hafa nú fundið höfuðið í frystinum þar sem jarðneskar leifar álsins voru geymdar.

Fréttir bárust af því í gær að höfuðið vantaði en gert var ráð fyrir það hefði losnað af þegar állinn var veiddur upp úr brunninum í síðustu viku. Í höfði fiska má finna kvarnirnar sem eru notaðar til að greina aldur fiska.

„Við skoðuðum frystinn einu sinni enn og tókum þá eftir að höfuðið var þar eftir allt saman. Við tókum ekki eftir því fyrst og því höfum við verið að skemmta okkur hérna í brunninum,“ segir Johan Wagnström, fiskistjóri lénsstjórnar Skánar, í samtali við Dagens Nyheter en leit hófst að höfðinu í brunninum í gær.

Þó að höfuðið hafi fundist í frystinum er ekki víst að dvöl sérfræðinganna í brunninum hafi verið til einskis. „Við vitum ekki hvort kvarnirnar hafi dottið út úr fiskinum og eru í brunninum,“ en leit og rannsóknir í brunninum munu því halda áfram eitthvað fram eftir degi. Wagnström segist nokkuð viss um að kvarnirnar hafi fundist í brunninum, þó að rannsóknarteymið þurfi að flytja þær á rannsóknarstofu til að fullvissa sig um slíkt.

Haldið hefur verið fram að állinn hafi verið sá elsti í heimi og synt um í brunni í bænum Brantevik frá árinu 1859 þegar átta ára piltur kom honum fyrir í brunninum. Að sögn var álnum komið fyrir í brunninum árið 1859 af Samuel nokkrum Nilsson og hefur synt þar um á miklu dýpi. Stuðlaði myrkrið að því að augu álsins urðu ónáttúrulega stór.

Állinn vakti fyrst athygli þegar innslag um hann var unnið fyrir sænska náttúrulífsþáttinn Mitt i naturen í sænska ríkissjónvarpinu. Þá var minnst á álinn í bók rithöfundarins Fritiof Nilsson Piraten, „Bombi Bitt og ég“ sem út kom 1932.

Gert er ráð fyrir að krufning fari fram í fyrsta lagi 25. ágúst næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×