Innlent

Leita að höfði álsins aldna á Skáni

Atli Ísleifsson skrifar
Hermt er að állinn hafi verið í brunninum í 155 ár. Állinn á myndinni tengist fréttinni ekki beint.
Hermt er að állinn hafi verið í brunninum í 155 ár. Állinn á myndinni tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Krufning á álnum sem var 155 ár í brunni á Skáni í Svíþjóð og fannst dauður í síðustu viku mun eitthvað tefjast þar sem höfuð fisksins vantar. Sérfræðingur hefur verið sendur á vettvang til að finna höfuð fisksins en kvarnirnar í höfði fiska eru notaðar til að greina aldur fiska. Vonast er til að höfuðið finnist í slíinu á botni brunnsins.

Haldið hefur verið fram að állinn hafi verið sá elsti í heimi og synt um í brunni í bænum Brantevik frá árinu 1859 þegar átta ára piltur kom honum fyrir í brunninum. Leifar fisksins hafa verið sendar til krufningar, en höfuð fisksins virðast hafa losnað þegar hræið var veitt upp úr brunninum.

Að sögn var álnum komið fyrir í brunninum árið 1859 af Samuel nokkrum Nilsson og hefur synt þar um á miklu dýpi. Stuðlaði myrkrið að því að augu álsins urðu ónáttúrulega stór.

Állinn vakti fyrst athygli þegar innslag um hann var unnið fyrir sænska náttúrulífsþáttinn Mitt i naturen í sænska ríkissjónvarpinu. Þá var minnst á álinn í bók rithöfundarins Fritiof Nilsson Piraten, „Bombi Bitt og ég“ sem út kom 1932.

Gert er ráð fyrir að krufning fari fram í fyrsta lagi 25. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×