Innlent

Sýndi ógnandi tilburði á Bar 7

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Ágústa
Karlmaður varð fyrir fjórum stungusárum í átökum á Frakkastíg um áttaleytið í gær. Sjónarvottur sem varð vitni að atburðarrásinni frá upphafi til enda segir að árásarmaðurinn hafi verið með ógnandi tilburði inn á Bar 7 á Frakkastíg. Maðurinn sem var stunginn var þar í þriggja manna hópi.

Hann hafi þar verið með Leatherman töng, sem er með hníf í öðrum endanum og sveiflað henni um.

Vitnið segir manninn greinilega ekki verið í jafnvægi og ölvaður, en sagði ekkert hægt að fullyrða um hvort hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Dyravörður ræddi við manninn og einnig ungur maður sem virtist róa hann niður.

Vitnið fór út af Bar 7 og gekk upp að horni Frakkastígs og Laugavegs. Þá lenti mönnunum þremur saman við árásarmanninn. Þeim hafi þó tekist að hrekja hann í burtu með því að taka af sér belti og slá til hans.

Hann segir árásarmanninn, sem sé Íslendingur, hafa hlaupið upp að Laugarveginum blóðugur á höfði eftir beltissylgju. Síðan hafi hann rokið aftur niður Frakkastíginn og stungið einn mannanna margoft.

Fórnarlambið, sem er maður af erlendu bergi brotinn fékk fjögur stungusár, samkvæmt Friðriki Smára Björgvinssyni yfirlögregluþjóni, sem fer með rannsókn málsins. Hann var ekki lífshættulega særður og var útskrifaður af sjúkrahúsi skömmu eftir miðnætti.

Bæði árásarmaðurinn og sá sem var stunginn eru á fertugsaldri. Árásarmaðurinn var handtekinn og verður yfirheyrður í dag. Eftir það verður ákvörðun tekin um framhald málsins samkvæmt Friðriki Smára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×