Hlaupaleiðin í maraþoni og hálfmaraþoni liggur um Klettagarða. Nokkur þúsund hlauparar áttu því leið þar um í morgun þegar vörubílstjórinn sem sést í myndbandinu reynir að keyra þar í gegn.
Bílstjórinn var sjálfur að koma af bílastæði Flytjanda. Eins og sést á myndbandinu reyndi bílstjórinn að mjaka sér inn í götuna, í gegn um stöðugun straum hlaupara, við misjafna hrifningu þátttakenda.
„Fólk var að garga á hann og berja í bílinn,“ segir Baldur Þórir Baldursson, sem varð vitni að atvikinu og tók það upp á myndband.
Hann segir að margir hlauparar hafi verið afar ósáttir við bílstjórann.
Enda stórhættulegt að aka vörubíl út í svona þvögu af fólki. „Þetta var alveg vonlaust dæmi. Ég skil ekki hvað bílstjórinn var að reyna þetta,“ segir hann.
Baldur segir að bílstjórinn hafi á endanum komist af bílastæðinu og í gegn um þvöguna. Það hafi þó tekið um tíu mínútur. Þá hafi hann stoppað við næsta vegatálma og æst sig við sjálfboðaliða sem þar stóð og passaði upp á umferð.
Baldur segir að réttast hefði verið fyrir bílstjórann að bíða rólegur á meðan hlaupararnir kláruðu að hlaupa þarna í gegn í staðinn fyrir að skapa hættu eins og hann gerði.
„Þetta Reykjavíkurmaraþon er einu sinni á ári. Hlaupaleiðir eru vel auglýstar og þær ættu ekki að koma neinum á óvart,“ segir Baldur.
Eimskip hafa beðist afsökunar á akstri bílstjóra síns líkt og lesa má um í fréttinni að neðan.