Erlent

Karadzic knúði áfram stríðsglæpi í Bosníu

Atli Ísleifsson skrifar
Radovan Karadzic var handtekinn í Belgrad árið 2008. Réttarhöld yfir manninum hafa staðið yfir síðastliðin fimm ár.
Radovan Karadzic var handtekinn í Belgrad árið 2008. Réttarhöld yfir manninum hafa staðið yfir síðastliðin fimm ár. Vísir/AFP
Saksóknarar við stríðsglæpadómstólinn í Haag segja Radovan Karadzic, leiðtoga Bosníu-Serba í Bosníustríðinu, hafa verið helsta drifkraftinn á bak við ofsóknir gegn múslímum og fleiri á tíunda áratugnum.

Lokaræður saksóknara hafa nú verið fluttar í réttarhöldunum gegn Karadzic, en þau hafa staðið síðastliðin fimm ár. Saksóknarar krefjast þess að Karadzic verði dæmdur í lífstíðarfangelsi. Í frétt BBC segir að ákæran gegn Karadzic hafi verið í ellefu liðum, þar sem hann er meðal annars gefið að sök að hafa borið ábyrgð á þjóðarmorði.

„Stefna þjóðernishreinsunar hefur verið afhjúpuð að fullu og að Karadzic hafi knúið henni áfram,“ sagði saksóknarinn Alan Tieger. Búist er við að dómur falli í málinu að ári liðnu.

Karadzic er sakaður um að hafa í samstarfi við hershöfðingjann Ratko Mladic sóst eftir að slátra eða reka Bosníu-Króata og múslíma á þeim svæðum sem Serbar höfðu gert tilkall til, á brott. Lokaræður verjenda verða fluttar á miðvikudag eða fimmtudag.

Karadzic er meðal annars sakaður um að bera ábyrgð á blóðbaðinu í Srebrenica árið 1995 þar sem um átta þúsund múslímskir menn og drengir voru teknir af lífi.

Karadzic var handtekinn í Belgrad árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×