Íslenski boltinn

Bjarni: Svo segir Þóroddur að þetta var ekki leikbrot

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Bjarni Guðjónsson
Bjarni Guðjónsson vísir/stefán
Bjarni Guðjónsson þjálfari Fram var allt annað en sáttur við Þórodd Hjaltalín dómara leiks Stjörnunnar og Fram í Pepsí deild karla í fótbolta í dag.

Stjarnan vann leikinn 4-0 en í stöðunni 3-0 átti sér stað umdeilt atvik. Sveinn Sigurður Jóhannesson var þá nýkominn í mark Stjörnunnar vegna meiðsla Ingvars Jónssonar markvarðar. Hann felldi Guðmund Stein Hafsteinsson framherja Fram sem var sloppinn einn í gegn en ekkert dæmt því Arnþór Ari Atlason fékk boltann í dauðafæri en Daníel Laxdal bjargaði á línu.

„Varamarkmaðurinn kominn í markið, útileikmaður hefði farið í markið, staðan úr 3-0 í 3-1 og hálftími eftir af leiknum. Ég vil taka undir þessi góðu orð sem voru látin falla í vikunni. Það þarf að skoða þetta. Þetta gerist líka í síðustu umferð hjá okkur, við eigum að fá víti en þetta er erfiður völlur að koma og dæma,“ sagði Bjarni sem hefði viljað sjá Svein Sigurð rekinn út af og vítaspyrnu dæmda.

„Það féllu í vikunni orðin hjá stelpunum að það kom mest á óvart hvað dómgæslan var léleg. Svo segir Þóroddur að þetta var ekki leikbrot. Þetta er með ólíkindum svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ sagði Bjarni.

„Þetta hefði gefið okkur leik en í staðin er 3-0 og dómarinn lætur leikinn líða áfram og það er erfitt að koma til baka á móti Stjörnunni í þessari stöðu. Í 3-1 með Veigar eða einhvern í markinu hefði þetta hugsanlega orðið leikur,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×