Erlent

Áratugslöngum leiðangri að ljúka

Samúel Karl Ólason skrifar
Halastjarnan sem Philae mun lenda á.
Halastjarnan sem Philae mun lenda á. Vísir/AFP
Vísindamenn Evrópsku geimferðarstofnunarinnar ESA hafa ákveðið að reyna að lenda könnunarfari úr geimfarinu Rosettu, á halastjörnunni 67P/Chuyumov Gerasimenko þann 12. nóvember næstkomandi. Vonast þeir til þess að þannig komist leiðangurinn á lokastig, en hann hefur staðið yfir í áratug.

Takist að lenda könnunarfarinu, sem er um hundrað kíló og kallast Philae, er það í fyrsta sinn sem slík lending tekst á halastjörnu.

AP fréttaveitan segir ESA áætla að lendingin muni taka um sjö tíma, en það tekur skilaboð frá jörðu um 28 mínútur að ná til Rosettu, og öfugt. Þá gaf stofnunin út tilkynningu í dag þar sem segir að varalendingarstaður hafi verið ákveðinn ef eitthvað komi upp á.

Geimfarinu var skotið á loft árið 2004 og hefur síðan mjakast í átt að halastjörnunni. Nú er halastjarnan og Rosetta í um 509 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni.

BBC segir að líkurnar á mistökum séu háar. Til stendur að varpa könnunarfarinu úr tuttugu kílómetra hæð og láta það lenda á kílómetersbreiðu svæði.

Heppnist lending á könnunarfarið að festa sig við yfirborðið, en þó er ekki vitað hverjar aðstæðurnar eru á yfirborðinu. Þannig er ekki víst að farið muni haldast á yfirborði halastjörnunnar.

Lendingarsvæðið sem Philae er ætlað að lenda á er um kílómetri að breidd.Vísir/AFP
Hér að neðan má sjá útskýringarmyndband um verkefni Rosettu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×