Fjöldi fólks mótmælti í borginni St. Louis í Bandaríkjunum í gær, eftir að lögreglumaður á frívakt skaut 18 ára þeldökkan mann til bana. Lögreglustjóri borgarinnar segir lögregluþjónin hafa verið í auka vinnu sinni fyrir öryggisfyrirtæki, þar sem hann var í öryggisgæslu.
Hann sagði þrjá menn hafa hlaupið undan sér en einn þeirra hafi verið vopnaður. Lögreglumaðurinn elti hann. Eftir átök mun ungi maðurinn hafa skotið á lögregluþjónin sem skaut til baka.
Lögreglustjórinn sagði samkvæmt AP fréttaveitunni að sönnunargögn á vettvengi gæfu í skyn að ungi maðurinn hafi skotið þremur skotum að lögreglumaðurinn áður en byssa hans stíflaðist. Lögreglumaðurinn skaut 17 skotum. „Rannsókn mun leiða í ljós hvort viðbrögð hans voru viðeigandi,“ sagði Sam Dotson lögreglustjóri.
Fjöldi fólks mótmælti á staðnum þar sem maðurinn var skotinn og sumir hverjir hrópuðu „hendur upp ekki skjóta“ eins og mótmælendur í Ferguson hrópuðu gjarnan. Þar skaut hvítur lögreglumaður ungan þeldökkan mann til bana og leiddi það til margra vikna mótmæla.
Enginn mótmælandi var handtekinn í gær.
Fjölskylda mannsins segir hann hafa heitið Vonderrit Myers og að hann hafi verið óvopnaður.
„Hann hélt á samloku og þeir héldu að það væri byssa. Þetta er alveg eins og með Michael Brown,“ sagði Teyonna Meyers, frænka hans við fjölmiðla í St. Louis.

