Það stefnir ekki í að hinn samkynhneigði Michael Sam muni spila í NFL-deildinni í vetur.
Dallas Cowboys tilkynnti í gær að Sam væri ekki lengur í æfingahópi félagsins. Þar hafði hann verið síðan 3. september en náði aldrei að brjóta sér leið inn í aðallið félagsins.
Þar áður var hann að æfa með St. Louis Rams en náði ekki heldur að tryggja sér sæti í hópnum þar. Hann er því nú án félags og þarf að stokka spilin upp á nýtt.
Sam þakkaði Cowboys fyrir tækifærið á Twitter-síðu sinni og sagðist ætla að halda áfram að styrkja sig og reyna að komast að í deildinni.
Aldrei áður hafði leikmaður komið út úr skápnum og reynt fyrir sér í deildinni áður og þrautaganga Sam heldur áfram.
