Innlent

Vildu virða þverpólitíska sátt um Reykjavíkurflugvöll

Stefán Árni Pálsson skrifar
Júlíus Vífill Ingvarsson, fulltrúi sjálfstæðismanna í umhverfis- og skipulagsráði.
Júlíus Vífill Ingvarsson, fulltrúi sjálfstæðismanna í umhverfis- og skipulagsráði.
Fulltrúar sjálfstæðismanna í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur greiddu á fundi ráðsins í morgun atkvæði gegn tillögu meirihluta þess um að neyðarbrautin á Reykjavíkurflugvelli víki fyrir íbúðabyggð á hinu fyrirhugaða Hlíðarendasvæði við Vatnsmýri. Vildu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu þannig sýna þeirri þverpólitísku sátt sem ríkt hefur um störf Rögnunefndarinnar virðingu.

Í bókun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram í umhverfis- og skipulagsráði í morgun kemur fram að Icelandair hafi gert alvarlega athugasemd við deiliskipulag Hlíðarenda en flugfélagið telji: „óviðunandi að afkastageta og áreiðanleiki núverandi flugvallarstæðis verði skert með óafturkræfum hætti“.

Í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum kemur fram að það liggi fyrir að einungis einn nefndarmanna í Rögnunefndinni, Dagur B. Eggertsson, skilji samkomulagið um nefndina með þeim hætti að brotthvarf neyðarbrautarinnar hafi ekki áhrif á vinnu nefndarinnar.

Að sögn Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fulltrúa sjálfstæðismanna í umhverfis- og skipulagsráði, sýnir samþykkt þessarar tillögu það að borgarstjórnarmeirihlutinn beri litla sem enga virðingu fyrir vinnu Rögnunefndarinnar.

„Það skýtur óneitanlega skökku við að borgarstjóri undirriti þetta samkomulag fyrir ári síðan og taki sæti í nefndinni en vinni svo að því að grafa undan bæði samkomulaginu og starfi nefndarinnar. Að mínu mati eru svona vinnubrögð fullkomlega óviðunandi,“ segir Júlíus Vífill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×