Erlent

Múbarak ekki dæmdur fyrir morð á mótmælendum

Bjarki Ármannsson skrifar
Múbarak er nú þegar að afplána þriggja ára dóm fyrir fjárdrátt.
Múbarak er nú þegar að afplána þriggja ára dóm fyrir fjárdrátt. Vísir/AFP
Dómstóll í Egyptalandi hefur vísað frá dómi öllum ákærum gegn Hosní Múbarak, fyrrverandi forseta landsins, sem snúa að drápi 239 mótmælenda í byltingu gegn honum árið 2011.

Múbarak, fyrrverandi innanríkisráðherra hans og sex aðrir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi í júní 2012 fyrir að hafa lagt á ráðin um að drepa mótmælendurna en í fyrra var málið tekið upp á ný vegna tæknilegra atriða. Múbarak, sem er 86 ára, er nú þegar að afplána þriggja ára dóm fyrir að draga sér fé frá hinu opinbera.

Samanlagt er talið að um 800 mótmælendur hafi látið lífið í átökunum 2011, en ákærurnar gegn Múbarak snéru aðeins að þessum 239.

Samkvæmt fréttastofu BBC brutust út mikil fagnaðarlæti í dómsal þegar dómari kvað upp úrskurð sinn. Margir ættingjar hinna látnu eru þó gríðarlega ósáttir.

„Þessi úrskurður þýðir að enginn hefur verið látinn bera ábyrgð á drápum rúmlega 800 manns,“ er haft eftir egypskum fréttamanni. „Það er líkt og hinir látnu hafi framið fjöldasjálfsmorð.“


Tengdar fréttir

Mubarak dæmdur í þriggja ára fangelsi

Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands, var í morgun dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að draga sér fé úr opinberum sjóðum. Synir hans tveir fengu einnig dóma í sama máli og þurfa að dúsa í fangelsi í fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×