Innlent

Fékk aðeins að taka mat og vín út af Caruso

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eigendur og starfsmenn Caruso hjálpuðust að við að flytja mat og vín út af veitingastaðnum í dag.
Eigendur og starfsmenn Caruso hjálpuðust að við að flytja mat og vín út af veitingastaðnum í dag. Vísir/Vilhelm
José García, eigandi veitingastaðarins Caruso, fær ekki að taka neitt með sér út af staðnum, annað en mat og vín, þrátt fyrir að eiga meirihlutann af því sem þar er inni, svo sem borðbúnað, glös, skrautmuni og húsgögn.  

Þá eru enn vélar inni á staðnum sem Ölgerðin, K. Karlsson og Vodafone eiga, til dæmis kaffivélar og kæliskápar. Fyrirtækin freistuðu þess í dag að sækja tækin sem þau eiga inni á staðnum en lögreglan meinaði þeim það.

Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður José, segist ekki kunna skýringar á því hvers vegna hvorki José né fyrirtækin hafi ekki fengið að taka eigur sínar af staðnum.  Lögreglan hafi ekki gefið neinar skýringar á því í dag þegar Ómar leitaði eftir því.

José er mjög ósáttur við að fá ekki að taka annað út af staðnum en matið og vínið.  Hann er þó ánægður með að hafa fengið tölvu staðarins í hendurnar, pöntunarbókina sem og starfsmannabókina.

Starfsfólk veitingastaðarins safnaðist saman fyrir utan staðinn á ellefta tímanum í morgun og var þar fram eftir degi. Fólkið var að sækja eigur sínar og önnur verðmæti í eigu fyrirtækisins og starfsmanna, sem eigandi hússins læsti inni.


Tengdar fréttir

Veitingamaðurinn á Caruso læstur úti af húseigandanum

José Garcia, veitingamaður á Caruso, læstur úti af staðnum af húseigandanum vegna deilna um leigusamning. Mikið af eignum inni á staðnum og veggur reistur til að varna starfsfólki inngöngu. Kærði atvikið til lögreglu.

Lögreglan gerir ekki neitt í Caruso-málinu

Eigandi veitingastaðarins Caruso fær enga aðstoð frá lögreglu við að komast inn á staðinn eftir að húseigandinn réðst þangað inn og skipti um skrár. Sérfræðingur segir lögregluna með þessu viðurkenna það að menn taki lögin í sínar hendur.

Rekstur Caruso lamaður eftir yfirtöku

José Garcia veitingamaður á Caruso segir framkomu húseigenda ótrúlega og hann efist um að þessi framkoma þekkist í öðrum Evrópulöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×