Erlent

Charles Manson heimilað að gifta sig

Atli Ísleifsson skrifar
Charles Manson var neitað um reynslulausn í tólfta sinn árið 2012.
Charles Manson var neitað um reynslulausn í tólfta sinn árið 2012. Vísir/AP
Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson hefur fengið heimild frá yfirvöldum til að ganga að eiga 26 ára unnustu sína sem hefur heimsótt hann í fangelsi undanfarin ár.

Í frétt BBC segir að leyfið hafi verið veitt fyrir tíu dögum síðan. Hin 26 ára Afton Elaine Burton fluttist til Corcoran í Kaliforníu-ríki fyrir níu árum síðan, að sögn til að vera nær Manson.

Hinn áttræði Manson situr nú af sér lífstíðardóm vegna dauða sjö manna og ófædds barns í Los Angeles árið 1969. Meðal fórnarlambanna var leikkonan Sharon Tate, eiginkona kvikmyndaleikstjórans Roman Polanski.

Burton, sem sjálf kýs að kalla sig „Star“, segir í samtali við fréttastofu AP, að Manson og hún muni ganga í það heilaga í næsta mánuði en heimildin gildir til þriggja mánaða.

Manson og þrjár samverkakonur hans voru öll dæmd til dauða fyrir brot sín, en dauðarefsing var afnumin í Kaliforníu árið 1972.

Manson var neitað um reynslulausn í tólfta sinn árið 2012, en hann má næst sækja um slíkt árið 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×