Sonur Guðrúnar er Sigurður Jóns Súddason sem einnig var til umfjöllunar í þætti Bresta fyrir viku þegar fréttaskýringaþátturinn fjallaði um mögulegan lækningamátt kannabis við krabbameini.
Sjá einnig: Sannfærður um að kannabis hafi lækningamátt
Rætt var við Ásgeir Daða Rúnarsson sem hefur sjálfur nýtt sér kannabis í baráttu sinni við krabbamein. Einnig var talað við Sigurð sem greindist með heilaæxli í fyrra. Hann notar kannabis í þeirri von um að læknast af krabbameininu. Ásgeir hefur aðstoðað Sigurð og Guðrúnu við að útbúa sérstaka kannabisolíu sem hefur dregið verulega úr þjáningu Sigurðar.

„Staðan er enn sú sama. Hann er að fara í myndatöku í byrjun desember og þá vitum við kannski aðeins meira, hvort einhver breyting hafi orðið þar á. Það er rétt að krabbameinið er á sínum stað,“ segir Guðrún Jóna.
„Þegar verkirnir hurfu og hann fór aftur að koma til sjálfs síns, þá vakti það upp vonir að líkaminn fengi þá frið til að lækna sig. Það er alveg klárt að lífsgæði Sigurðar jukust til muna við það að nota kannabis. Höfuðverkurinn hvarf alveg og hann hefur einfaldlega ekki fengið höfuðverk síðan að hann byrjaði að taka kannabisolíu. Orkan hans hefur smá saman verið að koma til baka og þetta er allt annað.“
Lóa Pind segir að kannabis hafi í raun lítið verið rannsakað þar sem það hefur verið ólöglegt í vestrænum ríkjum á undanförnum áratugum.

Lóa segir að geðlæknar haldi því aftur á móti fram að kannabis hafi mikil áhrif á geðræna kvilla fólks.
Guðrún segir að fleiri hafi leitað til Ásgeirs eftir að þátturinn fór í loftið og í þeirri von um að fá aðstoð við að lina þjáningar.
„Fíkniefnalögreglan hefur ekkert haft samband við mig eftir að þátturinn fór í loftið,“ segir Guðrún Jóna.
Stofnaður hefur verið Facebook hópur undir yfirskriftinni „Ég styð Ásgeir Daða og rétt hans til að hjálpa fólki.“