Íslenski boltinn

Ingvar Þór Kale: Aldrei að vita nema ég bjóði Árna í bíó

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ingvar Þór Kale markvörður Víkings.
Ingvar Þór Kale markvörður Víkings. Vísir/Daníel
Nýliðar Víkinga eru í flottum málum í Pepsi-deildinni eftir 1-0 sigur á Breiðabliki í 9. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld en þetta var fimmti sigur Víkingsliðsins í deildinni í sumar.

„Blikarnir sóttu fast á okkur og gáfu okkur erfiðan leik en við héldum út og ég er gríðarlega ánægður með að landa þessum stigum,“ sagði Ingvar Þór Kale markvörður Víkings í leikslok.

„Þeir fengu þrjú dauðafæri í lokin og við náðum að henda okkur fyrir það og landa sigrinum.

„Það er gríðarlega erfitt að leika manni færri á móti Breiðabliki. Breiðablik er erfiðasta liðið að lenda manni færri á móti. Þeir halda boltanum vel og koma sér í færi. Það var frábært hjá okkur að ná að halda þetta út,“ sagði Ingvar sem náði loksins að leggja Breiðablik að velli eftir að hafa yfirgefið félagið og farið í Víking.

„Ég var búinn að spila við þá held ég þrisvar eftir að ég kom yfir aftur og alltaf gengið illa. Það var mjög gott að ná að klára þetta í dag og sætur sigur,“ sagði Ingvar en það vakti óneitanlega athygli þegar Árni Vilhjálmsson fyrrum liðsfélagi Ingvars hljóp að Ingvari eftir að greinilega var brotið á markverðinum og lét hann heyra það.

„Það gerist bara í hita leiksins. Ég og Árni eigum eftir að takast í hendur á eftir og það er aldrei að vita nema ég bjóði honum í bíó eða eitthvað,“ sagði Ingvar léttur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×