Innlent

Neitar að hafa reynt að kúga 100 milljónir út úr hjónum á Ísafirði

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
36 ára karlmaður er ákæður fyrir tilraun til þess að kúga 100 milljónir út úr hjónum á Ísafirði.
36 ára karlmaður er ákæður fyrir tilraun til þess að kúga 100 milljónir út úr hjónum á Ísafirði. VÍSIR/PJETUR
36 ára gamall karlmaður neitaði sök í máli þar sem hann er ákærður fyrir tilraun til þess að kúga 100 milljónir króna út úr hjónum á Ísafirði. Aðalmeðferð fór fram í gær í Héraðsdómi Vestfjarða.

Vísir hefur ákæru ríkissaksóknara á hendur manninum undir höndum. Í henni kemur fram að karlmaðurinn hafi hótað því að beita manninn eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi í því skyni að hafa af honum fé.

Hótanir um ofbeldi og líflát

Meðal annars hafi ákærði skrifað manninum bréf þar fram komu ógnandi fyrirmæli um að maðurinn ætti að greiða þeim sem stæði að bréfinu 100 milljónir.  Bréfið var sent í lok október árið 2012 og átti maðurinn að greiða milljónirnar fyrir 20. nóvember sama ár.  Í bréfinu sagði hvar og hvenær maðurinn ætti að nálgast peninginn. En það var í tilteknum bönkum í Reykjavík.

Í bréfinu kom fram að fylgst yrði með ferðum mannsins og frekari fyrirmæli yrði send með sms-skilaboð síðar. Manninum var hótað ofbeldi og lífláti ef hann leitaði til lögreglu vegna kröfunnar.

Jafnframt kom fram að mennirnir sem stæðu á bak við sendingu bréfsins hefðu reynslu af því að hafa fé af fólki sem þeir hefðu valið og að maðurinn væri einn þeirra sem valinn hefði verið. Mennirnir slepptu ekki þeim mönnum sem þeir hefðu valið úr til að greiða þeim og hefðu þurft að hrista menn til í því skyni að fá þá til að greiða þeim pening.

Þeir hefðu undanfarið fylgst með manninum og vissu allt um daglegt líf hans og vandamanna hans. Vonuðust mennirnir eftir því að þurfa ekki að beina aðgerðum sínum að vandamönnum mannsins og að ekki kæmi til leiðinda eða átaka vegna þessa.  Velferð allra væri best borgið með því að maðurinn yrði við kröfunni.

Í ákæru segir svo að ákærði hafi fylgt bréfinu og fjárkúguninni eftir með því að senda ógnandi sms-skilaboð í farsíma mannsins.

Allt var þetta að mati ríkissaksóknara til þess fallið að valda hjónunum ótta um líf þeirra og velferð en hjónin leituðu til lögreglu vegna málsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×