Íslenski boltinn

Jörundur: Þetta er líklegast síðasta tímabil mitt með BÍ/Bolungarvík

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jörundur Áki.
Jörundur Áki. Mynd/Vísir
Jörundur Áki Sveinsson gerir ráð fyrir að þetta sé hans síðasta tímabil með BÍ/Bolungarvík en þetta staðfesti Jörundur við vefsíðuna bb.is.

Samningur Jörunds við BÍ/Bolungarvík rennur út um næstu mánaðarmót en hann tók við liðinu af Guðjóni Þórðarsyni árið 2011. Liðinu tókst að tryggja sæti sitt í 1. deildinni um síðasta helgi með jafntefli gegn Víking Ólafsvík.

„Ég býst við að þetta verði síðasta tímabilið mitt og sennilega verða þessir tveir leikir sem eftir eru síðustu leikir mínir með BÍ/Bolungarvík. Við ætlum að klára þessa leiki með sæmd og klifra upp stigatöfluna en við eigum möguleika á því að ná 31 stigum og við stefnum á það,“ segir Jörundur Áki

„Við vissum fyrir mót að þetta sumar yrði erfitt. Við vorum kannski aðeins of brattir að fara af stað með svona lítinn hóp, en við vorum staðráðnir í að gefa ungum leikmönnum tækifæri í sumar. Meiðsli lykilmanna og yngri strákanna settu strik í reikninginn en við fengum góða leikmenn til okkar um mitt mót og hinir leikmennirnir hafa stigið upp á síðustu vikum og við verið á góðri siglingu,“ sagði Jörundur í samtali við BB.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×