Maður reyndi að fá tvo drengi upp í bíl til sín við Laugarnesskóla í gær með því að bjóða þeim sælgæti. Póstur var sendur á foreldra í morgun þar sem fram kemur að maðurinn hafi verið á rauðum bíl og að drengirnir, sem eru í 1. bekk, hafi brugðist rétt við og neitað að fara í bílinn.
Talið er að atvikið hafi átt sér stað í frímínútum og segir Sigríður Heiða Bragadóttir skólastjóri í samtali við Vísi að haft hafi verið samband við lögreglu í morgun.
„Ég er búin að láta lögregluna vita og biðja kennara að ræða við nemendur um viðbrögð við gylliboðum sem þessum,“ segir í tilkynningu til foreldra. „Starfsmenn sem eru á útivakt hafa fengið fyrimæli um að vera með aukna vakt á svæðinu við Kirkjuteig. Lögreglan ætlar líka að auka vakt í kringum skólann og við vonum svo sannarlega að þessi aðili náist.“
Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er málið í vinnslu og ekki liggja fyrir frekari vísbendingar um hver gæti verið að verki.
Stutt er síðan Vísir fjallaði um svipað atvik sem gerðist í Álftamýri fyrr í þessum mánuði. Þá reyndi maður að tæla sjö ára gamlan dreng upp í bíl við Álftamýri.
Reyndi að lokka drengi upp í bíl með sælgæti
Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
