Innlent

Höfðu ekki leyfi til að sýna Hringadróttinssögu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólöf Lena Inaba Árnadóttir stóð fyrir maraþonsýningu á Hringadróttinssögu í Bíó Paradís í gær.
Ólöf Lena Inaba Árnadóttir stóð fyrir maraþonsýningu á Hringadróttinssögu í Bíó Paradís í gær. Vísir
Ekki hafði fengist leyfi frá rétthöfum fyrir maraþonsýningu á Hringadróttinssögu sem Ólöf Lena Inaba Árnadóttir stóð fyrir í Bíó Paradís í gær.

Myndform hefur sýningarrétt á myndunum hér á landi og segir Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að málið verði leyst í samstarfi við Bíó Paradís.

„Þetta er auðvitað höfundarréttarbrot en mér skilst að þetta sé í og með misskilningur. Við höfum í gegnum tíðina verið mjög sveigjanlegir þegar kemur að svona sýningum og lítið mál hefur verið að fá leyfi fyrir þeim. Ég held að þetta hafi verið hugsunarleysi, stelpan sem stendur fyrir sýningunni er auðvitað bara 14 ára, en menn sem eru í bíórekstri eiga auðvitað að vita betur,“ segir Gunnar.

Hann segir að ekki verði farið með málið í nein leiðindi; það verði einfaldlega samið við Bíó Paradís um greiðslu fyrir sýningunni á myndunum. Gunnar segir verðið samningsatriði í hvert sinn.

Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri Bíó Paradísar, segir að um mistök hafi verið að ræða hjá starfsmönnum kvikmyndahússins. Hún segir að Bíó Paradís muni fara að óskum rétthafans varðandi greiðslu fyrir sýningunni enda vilji bíóið halda áfram góðu samstarfi við Myndform.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×