Sigurjón M. Egilsson, þá blaðamaður á DV og núverandi fréttaritstjóri fréttastofu 365 miðla, skrifaði um málið á baksíðu mánudagsblaðsins 16. janúar 1989.
Fréttin rifjaðist upp fyrir mörgum þegar fréttist af árásinni á Aron um helgina en Aron var sleginn niður að tilefnislausu aðfaranótt sunnudagsins.
Árið 1989 var magnað ár fyrir Alfreð Gíslason en mánuði síðar leiddi hann íslenska landsliðið til sigurs í B-keppninni í Frakklandi. Alfreð var síðan kosinn Íþróttamaður ársins 1989.
Hér fyrir neðan má sjá þessa stuttu en athyglisverðu frétt úr DV mánudaginn 16. janúar 1989.
Hljóp uppi skemmdarvarga
Alfreð Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, hljóp uppi skemmdarvarga aðfaranótt laugardags. Alfreð, sem býr við Tjarnargötu í Reykjavík, vaknaði við hávaða og hlátrasköll. Þegar hann leit út sá hann að þrír menn voru að skemma bíl í götunni og virtust þeir skemmta sér vel við verkið.
Alfreð brá skjótt við - fór í buxur og skyrtu - fór út og hljóp uppi tvo af mönnunum. Annar þeirra virtist lítið ölvaður.
„Ég ákvað að fara með annan manninn heim og sleppti því hinum. Þegar ég kom með hann heim hringdi ég í lögregluna og hafði manninn hjá mér þar til hún kom," sagði Alfreð.
- Þurftir þú að hlaupa langt? „Nei, ég er svo fljótur að hlaupa," sagði Alfreð og hló við.
Alfreð sagði að sinn bíll hefði verið sá fjórtándi í röðinni af þeim fjórtán bílum sem mennirnir skemmdu. Þeir spörkuðu í afturhurð á bíl Alfreðs, brutu spegla, þurrkur og afturljós. „Ef þú ætlar að skrifa um þetta - getur þú þá ekki sagt að þetta hafi verið Siggi Sveins?"
