Erlent

Skotbardagar á Vesturbakkanum

Randver Kári Randversson skrifar
Ísraelskir hermenn í Hebron í dag.
Ísraelskir hermenn í Hebron í dag. Vísir/AFP
Til skotbardaga kom milli Ísraelshers og Palestínumanna í dag, í mestu átökum sem orðið hafa síðan Ísraelsmenn hófu leit að þremur ungmennum sem hurfu á Vesturbakkanum fyrir viku síðan. Reuters greinir frá þessu.

Að sögn Ísraelsmanna var ungmennunum, sem eru á aldrinum 16 til 19 ára, rænt af meðlimum Hamas samtakanna í nágrenni einnar af landnemabyggðum gyðinga síðastliðinn fimmtudag.

Þrír Palestínumenn særðust í átökum við ísraelska hermenn í borginni Jenin í nótt þegar um 300 Palestínumenn köstuðu sprengjum og skutu á ísraelskum hermenn sem voru í leit að ungmennunum.  Ísraelsku hermennirnir svöruðu með skothríð og handtóku 30 Palestínumenn. Undanfarna viku hafa Ísraelsmenn tekið 280 Palestínumenn til fanga.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, sakar Ísraelsmenn um nota hvarf ungmennanna sem átyllu til þess að ofsækja Palestínumenn og brjóta alþjóðleg mannúðarlög. Hann hefur jafnframt hvatt alþjóðasamfélagið til að fordæma aðgerðir Ísraelsmanna.  

Ísraelsher hefur leitað á yfir 900 stöðum á svæðinu í kringum Hebron og á Vesturbakkanum en ekkert hefur spurst til ungmennanna og enginn hefur lýst ábyrgð á brotthvarfi þeirra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×