Erlent

Elsti áll í heimi dauður eftir 155 ár í brunni

Atli Ísleifsson skrifar
Állinn í Brantevík á Skáni var með ónáttúrulega stór augu eftir árin öll í myrkri brunnsins. Á myndinni er annar áll.
Állinn í Brantevík á Skáni var með ónáttúrulega stór augu eftir árin öll í myrkri brunnsins. Á myndinni er annar áll. Vísir/Getty
Áll sem hefur synt um í brunni á Skáni í Svíþjóð í 155 ár er dauður.

Á vef sænska ríkissjónvarpsins segir að um elsta ál í heimi sé að ræða. „Vissulega er þetta sorglegt, ég hef vitað af honum síðan ég var lítill en nú er hann farinn,“ segir Tomas Kjellman, eigandi brunnsins sem er í bænum Brantevik á austurhluta Skánar.

Álnum var komið fyrir í brunninum árið 1859 af Samuel nokkrum Nilsson og hefur synt þar um á miklu dýpi. Stuðlaði myrkrið að því að augu álsins urðu ónáttúrulega stór.

Állinn vakti fyrst athygli þegar innslag um hann var unnið fyrir sænska náttúrulífsþáttinn Mitt i naturen í sænska ríkissjónvarpinu. Þá var minnst á álinn í bók rithöfundarins Fritiof Nilsson Piraten, „Bombi Bitt og ég“ sem út kom 1932.

Kjellman og fjölskylda er þó enn með annan ál í öðrum brunni á jörð sinni, en sá er einungis talinn vera um 110 ára gamall.

Hræið hefur nú verið fryst og flutt til Stokkhólms þar sem sérfræðingar hyggjast komast að nákvæmum aldri fisksins með því að skoða kvarnir fisksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×