Erlent

Brak vélarinnar fundið

Brak úr vélinni fundið Dwi Putranto, yfirmaður í indónesíska flughernum, sýnir ferðatösku og annað sem fannst á floti í Jövuhafi. Fréttablaðið/AP
Brak úr vélinni fundið Dwi Putranto, yfirmaður í indónesíska flughernum, sýnir ferðatösku og annað sem fannst á floti í Jövuhafi. Fréttablaðið/AP
Indónesía, AP Mikill grátur og harmakvein brutust út í gær meðal ættingja farþega indónesísku þotunnar sem fórst á sunnudag þegar tilkynnt var að fundist hefði brak úr vélinni og tugir líka á floti í Jövuhafinu. Þremur dögum eftir hvarf farþegaþotu flugfélagsins AirAsia varð ljóst að hún hefði farist í hafi í um það bil 160 kílómetra fjarlægð frá eyjunni Borneó. Hún var á leiðinni frá borginni Súrabaja í Indónesíu til Singapúr á sunnudaginn var, og var tæplega hálfnuð þegar hún hrapaði í hafið. Um borð voru 162 manns, farþegar og áhöfn. Nánast allir farþegarnir voru Indónesíubúar, sem oft gera sér ferð til Singapúr á frídögum. „Ég veit að vélin hefur farist, en ég get ekki trúað því að bróðir minn og fjölskylda hans séu látin,“ segir Ifan Joko, sem missti sjö ættingja sína, þar af þrjú börn. Enn var ekki vitað hvað olli hrapi vélarinnar en ljóst að mun auðveldara yrði að finna svarta kassann og annað úr vélinni þarna en malasísku farþegaþotuna sem hvarf sporlaust í mars síðastliðnum. Sú þota er talin hafa hrapað í Suður-Indlandshaf vestur af Ástralíu, þar sem hafdýpið er hundrað sinnum meira en í Jövuhafi. „Þetta gerir leitina miklu einfaldari,“ segir Eric van Sebille, haffræðingur við háskóla í Sydney í Ástralíu. Dýptin í Jövuhafi er að meðaltali um 40 til 50 metrar, þannig að oft væri hægt að sjá stórt brak á hafsbotni án þess að þurfa dýran leitarbúnað. Brak vélarinnar fannst á stað sem er aðeins tíu kílómetra frá þeim stað þaðan sem síðast bárust merki frá henni. Dýpi þarna er ekki nema 20 til 30 metrar. Töluverður öldugangur gerði þó björgunarfólki erfitt fyrir. Tony Fernandez, stofnandi og forstjóri lággjaldaflugfélagsins AirAsia, hélt í gær til Súrabaja til að votta aðstandendum hinna látnu samúð sína persónulega: „Ég er leiðtogi þessa fyrirtækis og verð að taka á mig ábyrgðina. Þess vegna er ég hér. Ég ætla ekki að hlaupast á brott undan skyldum mínum,“ sagði hann. gudsteinn@frettabladid.isw



Fleiri fréttir

Sjá meira


×