Íslenski boltinn

Stórskemmtilegt að kljást við Celtic

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
KR-ingar eru ánægðir með að hafa fengið Celtic.
KR-ingar eru ánægðir með að hafa fengið Celtic. Fréttablaðið/Daníel
Dregið var í fyrstu umferðir forkeppni Meistaradeildar Evrópu og Evrópudeildar UEFA í gær og voru fjögur íslensk lið í pottinum. Þrjú þeirra fara til Bretlandseyja en Íslandsmeistarar KR drógust gegn stórliði Celtic í Meistaradeild Evrópu. Hólmbert Aron Friðjónsson, fyrrverandi leikmaður Fram, er á mála hjá Celtic.

Þrjú lið taka þátt í Evrópudeild UEFA. Bikarmeistarar Fram mæta Nomme Kalju frá Eistlandi, Stjarnan leikur gegn Bangor City frá Wales og FH gegn Glenavon frá Norður-Írlandi. Öll þrjú íslensku liðin komu á undan upp úr hattinum og leika heimaleiki sína þann 3. júlí.

Í fyrra komust FH-ingar áfram úr annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu og tryggðu sér þar með minnst fjóra leiki til viðbótar og talsverðar tekjur fyrir félagið. Til að leika þann leik eftir þurfa KR-ingar að slá skoska stórveldið úr leik.

„Veikasti andstæðingurinn sem við gátum fengið var líklega Ventspils frá Lettlandi en það er auðvitað stórskemmtilegt að fá að kljást við Celtic,“ sagði Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, við Fréttablaðið. „Ég var því heilt yfir sáttur.“

KR hafði frumkvæði að því að skipta á heimaleikjum og fer því fyrri viðureignin fram hér á landi um miðjan næsta mánuð. Kristinn segir ljóst að hann muni fara fram á KR-velli.

„Við munum ekki gefa það eftir, sama hvað. Það er betra í alla staði að spila á okkar heimavelli.“

Kristinn segir að í gær voru þreifingar um sjónvarpsrétt nýhafnar en hann segir ljóst að af öllum liðum sem KR gat fengið mun Celtic skila Vesturbæingum mestum tekjum.

„En það er ekkert komið á hreint í þeim efnum – menn eru rétt byrjaðir að klóra sér í skallanum yfir því,“ sagði Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×