Íslenski boltinn

Betra að KR-ingur þjálfi KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vísir/Samsett mynd
„Þetta er náttúrlega draumastarf fyrir knattspyrnuþjálfara á Íslandi,“ segir Logi Ólafsson, knattspyrnusérfræðingur Stöðvar 2 Sports, um þjálfarastarfið hjá KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Logi þekkir það vel, en fyrir utan að gera Víking og ÍA að Íslandsmeisturum auk þess að vera landsliðsþjálfari karla og kvenna starfaði hann hjá KR frá 2007-2010 og vann bikarkeppnina.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var í Noregi á dögunum að ræða við úrvalsdeildarlið þar í landi, en þá er hann einnig þrálátlega orðaður við sitt gamla félag, Lilleström. Fréttablaðið telur hér upp fjóra mögulega arftaka Rúnars, en hvernig mann þarf til og hvernig er það að þjálfa KR?

„Það er gaman, en í því er fólgin mikil áskorun. Þetta er heitt sæti og fjölmiðlamenn spyrja gjarnan hvort maður finni fyrir pressu í Vesturbænum. En liðið er vanalega alltaf gott og það er gaman að þjálfa þarna. Hjá KR er góð umgjörð og góð stemning og að því leyti er þetta draumastarfið,“ segir Logi.

Þolinmæðin ekki mikil

Logi Ólafsson tók við KR seinni hluta sumars 2007, en Teitur Þórðarson var þá með liðið í mikilli fallbaráttu. Logi bjargaði liðinu frá falli og hóf uppbyggingu á sterku liði sem barðist um titilinn næstu ár og vann bikarinn 2008. Eftir erfitt gengi fyrri hluta móts 2011 þar sem liðið safnaði aðeins tólf stigum var Logi látinn fara og Rúnar Kristinsson tók við.

„Auðvitað er þetta eins og alls staðar, þegar liðið tapar er ekki eins gaman en því fylgir líka áskorun eins og í mínu tilviki. Ég tók við liðinu í fallsæti 2007 og það var áskorun að breyta gengi liðsins og fara svo í ákveðna tiltekt og reyna að byggja upp lið,“ segir Logi, en menn bíða ekki lengi með þjálfarabreytingar þegar illa gengur.

„Þegar eitthvað bjátar á er þolinmæðin ekki mikil og þannig er það bara. Það er samt söguleg staðreynd að lið sem ætlar að ná árangri þarf að halda sama mannskapnum í smá tíma og það hefur tekist hjá FH, KR og Stjörnunni. Eini mínusinn við starfið hjá KR er hugsanlega að þolinmæðin er ekki mikil.“

Betra að vera KR-ingur

Logi segir mun auðveldara að þjálfa KR, og vissulega flest önnur lið, þegar einróma sátt ríkir um þann sem tekur við. Með öðrum orðum vill hann meina að það sé betra að KR-ingur þjálfi KR.

„Ég held það. Það er allavega mín tilfinning þótt KR-ingar hafi lent í ógöngum þarna líka. Það er best ef breið samstaða ríkir um manninn eins og á við um Rúnar núna. Það er samt ekki útilokað að utanaðkomandi maður geti náð árangri þarna, en hann þyrfti kannski frekar að sanna sig,“ segir Logi, en hvernig líst honum á möguleikana sem Fréttablaðið tekur til?

„Það eru tveir menn þarna sem heyra undir þetta sem ég hef sagt um samstöðuna. Það eru Heimir Guðjónsson og Pétur Pétursson. Ég hef samt enga trú á því að Heimir hætti hjá FH. Skynsamlegast hjá KR væri að ráða Pétur Pétursson til að halda áfram þeirri vegferð sem félagið er á. Þessir menn eru allir verðugir arftakar Rúnars, en ég tel minnstar líkur á því að Heimir taki við KR,“ segir Logi Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×