Innlent

Segir starfsfólki Fiskistofu líða illa og það sé dapurt

Sveinn Arnarson og Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson dregur í land og segir að  ekki hafi verið haft samráð við starfsfólk Fiskistofu um ívilnandi aðgerðir.
Sigurður Ingi Jóhannsson dregur í land og segir að ekki hafi verið haft samráð við starfsfólk Fiskistofu um ívilnandi aðgerðir.
 Sigurður Ingi Jóhannsson atvinnuvegaráðherra dró í land í þættinum á Sprengisandi varðandi samstarf við starfsmenn Fiskistofu vegna fyrirhugaðra flutninga til Akureyrar.

„Ég held að það megi segja að þegar vísað er til þessar niðurstöðu verkefnisstjórnar um þessar ívilnandi aðgerðir sem ég hef lýst yfir að ég vilji beita mér fyrir, þá má segja að það hafi verið ofsagt að tillögunar hafi komið frá starfsmönnum,“ sagði Sigurður Ingi orðrétt í þættinum og bætti við að tillögurnar hefðu komið úr ráðuneytinu.

„Það var gengið of langt og ég skil fullkomlega að starfsmennirnir séu í erfiðari aðstöðu,“ sagði ráðherra.

Starfsmennirnir eru ósáttir við hversu lítið samráð hefur verið haft við þá um fyrirhugaða flutninga.

Inga Þóra Þórisdóttir, sviðsstjóri starfsmanna og gæðasviðs Fiskistofu, segir starfsfólki líða afar illa í dag, það sé dapurt og hafi áhyggjur af framtíð sinni.

Ef fram heldur sem horfir verði meginþorri starfsmanna Fiskistofu atvinnulaus á næstu misserum.

„Fólki líður ekki vel og það hugsar um framtíð sína og er ekki mjög bjartsýnt á framhaldið. Við teljum okkur hafa verið stillt upp við vegg með bréfi ráðherra til okkar starfsmanna þar sem það er í okkar höndum hvort starfsmenn sem komnir eru á aldur fái að ljúka störfum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Inga Þóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×