Erlent

Námsmenn mótmæla sýknun Mubaraks

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þrátt fyrir strangar reglur og hættu á fangelsun mættu hundruð námsmanna til þess að mótmæla sýknun Mubaraks í gær.
Þrátt fyrir strangar reglur og hættu á fangelsun mættu hundruð námsmanna til þess að mótmæla sýknun Mubaraks í gær. fréttablaðið/AP
Nokkur hundruð námsmanna komu saman fyrir utan háskólann í Kaíró í gær til að mótmæla sýknun Hosni Mubaraks, sem steypt var af stóli snemma árs 2011. Stúdentar efndu einnig til mótmæla í fleiri borgum landsins.

Dómstóll í Kaíró sýknaði Mubarak á laugardaginn af ákærum í tengslum við uppreisnina gegn honum árið 2011. Hann var, ásamt félögum sínum í þáverandi herforingjastjórn landsins, sakaður um að hafa skipað skipað öryggissveitum sínum að beita valdi, sem varð til þess að fjöldi mótmælenda lét lífið.

Strangt til tekið sýknaði dómstóllinn reyndar ekki Mubarak, heldur vísaði ákærunni frá af tæknilegum ástæðum. Hins vegar var yfirmaður öryggissveitanna og sex aðrir yfirmenn sýknaðir af allri ábyrgð á dauðsföllunum. Þessi úrskurður felur í reynd í sér að Mubarak geti ekki verið sekur.

Mubarak var í maí síðastliðnum dæmdur í þriggja ára fangelsi vegna spillingarmála. Óvíst er hvort hann þarf að afplána þann dóm frekar, þar sem hann hefur nú þegar verið í haldi í þrjú ár.

Um það bil 170 aðrir yfirmenn lögreglu og öryggissveita hafa verið sýknaðir af ákærum tengdum láti mótmælendanna. Þetta gerðist þrátt fyrir að fjöldi myndbanda sé til, sem sýna greinilega lögreglumenn skjóta á mótmælendur, aka yfir þá og misþyrma þeim með barsmíðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×