Erlent

Barack Obama fordæmdi morð á lögreglumönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
William J. Bratton. Lögreglustjórinn í New York segir að lögreglumennirnir hafi verið teknir af lífi. Hér sést Bratton með Bill de Blasio borgarstjóra á blaðamannafundi.
William J. Bratton. Lögreglustjórinn í New York segir að lögreglumennirnir hafi verið teknir af lífi. Hér sést Bratton með Bill de Blasio borgarstjóra á blaðamannafundi. Nordicphotos/AFP
Tveir lögreglumenn voru skotnir til bana við skyldustörf í New York á laugardagskvöld. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi í gær morðið á lögreglumönnunum.

Obama sagði að lögreglumennirnir myndu ekki eiga afturkvæmt til ástvina sinna „og það er með engu móti hægt að réttlæta það,“ sagði hann.

Talið er að mennirnir hafi verið skotnir einungis vegna þess að þeir voru einkennisklæddir í lögreglubúningum. Byssumaðurinn hafði nokkru áður birt hatursummæli um lögregluna á netinu.

Barack Obama
Í yfirlýsingu sinni sagði Obama: „Ég fordæmi morðin á lögreglumönnunum í New York-borg. Lögreglumenn sem þjóna og vernda samfélag okkar stefna sér í hættu fyrir okkur á hverjum einasta degi og verðskulda virðingu okkar og þakklæti,“ sagði Obama, en forsetinn er nú í fríi á Havaí.

Byssumaðurinn heitir Ismaaiyl Brinsley og er 28 ára gamall. Hann hafði birt skilaboð á samfélagsmiðlum um að hann hygðist myrða lögreglumenn í hefndarskyni fyrir Eric Garner, svartan mann sem féll þegar lögreglumenn reyndu að handtaka hann fyrir að selja sígarettur í New York.

Fyrr í mánuðinum ákvað dómstóll að ekki yrðu gefnar út ákærur vegna mannsins. Í nóvember ákvað dómstóll einnig að ekki yrðu gefnar út ákærur á hendur hvítum lögreglumanni sem skaut Michael Brown, óvopnaðan 18 ára ungling, til bana í Ferguson í Missouri.

Bill Bratton, lögreglustjóri í New York, sagði í yfirlýsingu vegna atviksins að mennirnir hefðu verið skotnir fyrirvaralaust. „Þeir voru einfaldlega teknir af lífi. Þeir voru valdir vegna einkennisbúninganna þeirra og vegna þess að þeir kusu að gegna því hlutverki að halda borginni öruggri,“ sagði Bratton. Eftir að hafa myrt lögreglumennina hljóp byssumaðurinn að neðanjarðarlestarstöð þar sem hann svipti sig lífi. Lögreglustjórinn segir að áður en Brinsely myrti lögreglumennina hafi hann ráðist að fyrrverandi unnustu sinni í Baltimore og sært hana.

Bill de Blasio, borgarstjóri í New York, hvatti alla þá sem sjá einhvers konar hótanir á samfélagsmiðlunum til þess að tilkynna slíkar hótanir til lögreglu.

Lögreglumenn voru síðast myrtir í New York árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×