Fótbolti

Argentína í úrslit eftir sigur í vítaspyrnukeppni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sergio Romero var hetja Argentínumanna sem mæta Þjóðverjum í úrslitaleik HM í Brasilíu.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu var markalaus og því þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit.

Romero varði tvívegis í vítaspyrnukeppninni - frá þeim Ron Vlaar og Wesley Sneijder en sá fyrrnefndi hafði átt stórleik í vörn hollenska liðsins.

Argentínumenn nýttu að sama skapi allar sínar spyrnur og tryggðu sér þar með farseðilinn í úrslitaleikinn á sunnudagskvöld.

En þrátt fyrir dramatíkina í vítaspyrnukeppnina var leikurinn óspennandi og olli vonbrigðum, sér í lagi eftir þá skemmtun sem Þjóðverjar buðu upp á í sinni undanúrslitaviðureign gegn Brasilíu í gær.

Brasilía og Holland eigast því við í leiknum um þriðja sæti mótsins á laugardagskvöldið.

Robin van Persie hafði verið tæpur fyrir leikinn vegna magakveisu en hann var í byrjunarliðinu í kvöld, sem og Nigel De Jong sem hafði verið meiddur. Báðir fóru reyndar af velli - De Jong snemma í síðari hálfleik og Van Persie í framlengingunni.

Leikurinn einkenndist fyrst og fremst af baráttu og gerðist því fátt markvert í venjulegum leiktíma. Hollendingar komust þó nálægt því að tryggja sér sigur í uppbótartíma þegar Arjen Robben var við það að sleppa í gegn. Javier Mascherano kom honum hins vegar til varnar á ögurstundu.

Áfram var barist í framlengingunni og fengu Argentínumenn tvö þokkaleg færi í síðari hálfleik hennar en nýttu þau ekki. Þar við sat og réðust úrslitin sem fyrr segir í vítaspyrnukeppni.

Bæði lið hafa á að skipa frábærum sóknarmönnum en í dag voru það varnarmennirnir sem voru í aðalhlutverki og áttu góðan dag. En fyrir vikið var leikurinn ekki mikið fyrir augað en knattspyrnuunnendur voru góðu vanir eftir 7-1 stórsigur Þýskalands á Brasilíu í hinni undanúrslitaviðureigninni í gær.

Sergio Romero var hetja Argentínu.Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×