Innlent

Risaflugvélin sýnd í fréttum Stöðvar 2

Stærsta flugvél heims af gerðinni Antonov 225, og sú eina sem til er í heiminum, er nú á Keflavíkurflugvelli, en þar millilenti hún í nótt á leið sinni vestur um haf. Kristján Már Unnarsson sýnir okkur ferlíkið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, en vélin er stærri en Hallgrímskirkjuturn. Hún er bæði lengsta og þyngsta flugvél sem smíðuð hefur verið, með allt að 640 tonna flugtaksþyngd.

Hún gengur undir gælunafninu Myrja, heimahöfnin er Kiev í Úkraínu, áhöfnin telur sex manns og vélin getur borið allt að 190 tonna farm. Hún er 84 metra löng, vænghafið er 88 metrar en til samanburðar er hæð Hallgrímskirkju 74 metrar. Sovétmenn voru reyndar langt komnir með að smíða annað eintak á sínum tíma en áform um að gera þá vél einnig flughæfa hafa ekki gengið eftir og á meðan er þessi vél einstök í heiminum.

Flugvélin var að koma frá Þýskalandi með farm sem er á leið til Kanada. Flugtak er áætlað frá Keflavík klukkan hálftvö í nótt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×