Erlent

Bandaríkin aflétta einangrun af Kúbu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barack Obama segir einangrunarstefnu síðustu áratuga ekki hafa virkað.
Barack Obama segir einangrunarstefnu síðustu áratuga ekki hafa virkað. vísir/ap
Bandaríkin og Kúba hafa ákveðið að taka upp stjórnmálasamband og opna á viðskipti og ferðalög milli landanna. Í meira en hálfa öld hefur bandarískt viðskiptabann á Kúbu haldið efnahagslífi eyjunnar í lamandi fjötrum.

Bæði Barack Obama Bandaríkjaforseti og Raul Castro Kúbuforseti ávörpuðu þjóðir sínar um hádegisbil í gær af þessu tilefni. Þeir ræddu saman í síma á þriðjudaginn í þrjá stundarfjórðunga. „Þessi fimmtíu ár hafa sýnt okkur að einangrunin hefur ekki virkað,“ sagði Obama í ávarpi sínu. „Það er kominn tími á nýja nálgun.“

Fylgst var með ávarpi forsetans í skólastofum á Kúbu.fréttablaðið/AP
Obama hyggst á næstunni opna bandarískt sendiráð í Havana, höfuðborg Kúbu, og skoða hvort taka eigi Kúbu af lista yfir ríki sem styðja hryðjuverkamenn. Bandarískir erindrekar verða sendir til Kúbu til viðræðna um frekari samskipti og útfærslu þeirra. „Þessi ákvörðun Obama forseta á skilið virðingu og viðurkenningu þjóðar okkar,“ sagði Raúl Castro Kúbuforseti í ávarpi sínu. Hann sagði ríkin tvö þurfa að læra að umgangast hvort annað með siðuðum hætti þrátt fyrir ágreining um ýmis mál.

Tíðindin komu töluvert á óvart, bæði á Kúbu og í Bandaríkjunum. Leynilegar samningaviðræður milli ríkjanna hafa staðið yfir í meira en ár. Þær hafa verið haldnar bæði í Kanada og í Páfagarði. Í ávarpi sínu þakkaði Castro sérstaklega Frans páfa fyrir hlut hans í þeirri lausn, sem nú er fundin.

Bandaríkjamenn lögðu meðal annars áherslu á að Kúbustjórn léti Alan Gross lausan, bandarískan ríkisborgara sem hafði verið í fangelsi á Kúbu í fimm ár, sakfelldur fyrir njósnir. Gross kom til Bandaríkjanna í gærmorgun, stuttu áður en Obama flutti ávarp sitt. Bandaríkin leystu fyrir sitt leyti úr haldi þrjá Kúbumenn, sem hafa verið í fangelsi í Bandaríkjunum hálfan annan áratug, einnig sakfelldir fyrir njósnir. Mennirnir eru þjóðhetjur á Kúbu ásamt tveimur öðrum, sem áður höfðu verið látnir lausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×