Erlent

Óhugnanlegt morð á níu ára stúlku skekur Frakkland

Atli Ísleifsson skrifar
Lík stúlkunnar fannst í skóglendi nokkru norður af Calais.
Lík stúlkunnar fannst í skóglendi nokkru norður af Calais. Vísir/AFP
Mikil sorg ríkir í franska bænum Calais eftir að níu ára stúlku var rænt í bænum, nauðgað og síðar kyrkt. Lögregla hefur handtekið 38 ára mann vegna málsins, en honum var nýlega sleppt úr fangelsi.

Í frétt BBC kemur fram að stúlkunni hafi verið rænt þar sem hún lék sér úti með vinkonu sinni, nærri heimili sínu á miðvikudaginn. Einungis nokkrum klukkustundum síðar fannst lík hennar í nálægu skóglendi og var maður handtekinn skömmu síðar. Hann hefur nokkrum sinnum verið dæmdur til fangelsisvistar, bæði í Frakklandi og Póllandi.

Flaggað er í hálfa stöng við ráðhús Calaisborgar og hefur borgarstjórinn boðað til sérstakrar minningarstundar í kvöld.

Móðir stúlkunnar segir í samtali við franska fjölmiðla að hún hafi skilið dóttur sína eftir í fimm mínútur til að skipta á tveimur yngri börnum sínum. Þegar hún sneri aftur sá hún hvernig maður þröngvaði stúlkunni upp í rauðan bíl á pólskum númerum og ókí burtu.

Lögregla fann bílinn nokkru síðar í skógi norður af bænum. Maðurinn var þá handtekinn en hann hafði lykla að bílnum á sér. Hann hafði nýverið afplánað sex ára fangelsisdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×