Innlent

Fíkniefnin í Norrænu: Verjandanum neitað um lögreglugögn í málinu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Austurlands og áleit það sem svo að afhending gagnanna gæti skaðað rannsóknarhagsmuni erlendra yfirvalda.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Austurlands og áleit það sem svo að afhending gagnanna gæti skaðað rannsóknarhagsmuni erlendra yfirvalda. Vísir
Hæstiréttur hafnaði í dag kröfu verjanda hollenska mannsins sem handtekinn var í síðasta mánuði með mikið magn af fíkniefnum í húsbíl í Norrænu um að fá afrit af öllum fyrirliggjandi gögnum lögreglunnar á Austurlandi í málinu. Dómurinn áleit það sem svo að afhending gagnanna gæti skaðað rannsóknarhagsmuni erlendra yfirvalda.

Verjandi mannsins sagði við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Austurlands í byrjun október að hann hafi margítrekað farið fram á það við fulltrúa lögreglustjóra, rannsóknarlögreglumann og aðstoðarsaksóknara að fá afrit af gögnum málsins. Hafi honum tekist að fá afrit af framburðarskýrslum mannsins, en að öðru leyti hafi honum verið neitað um að sjá gögn eða fá afrit af gögnum.

Hann taldi mikið vera til af gögnum, svo sem framburðarskýrslur af sambýliskonu mannsins, sem einnig var handtekin, skýrslur tæknideildar lögreglu um greiningu og vigtun fíkniefna, skýrslur tæknideildar um rannsókn á húsbíl mannsins, símagögn og fleira.

Lögreglustjórinn á Austurlandi byggði málflutning sinn á því að rannsóknarhagsmunir erlendra lögregluyfirvalda standi til þess að leynd verði haldið utan um þær upplýsingar sem komi fram í rannsóknarbeiðnum íslenskra yfirvalda. Dómurinn féllst á það, og áleit það sem svo að þeir erlendu rannsóknarhagsmunir sem ætlað sé að vernda vegi þyngra en réttindi hollenska mannsins.

Maðurinn var handtekinn ásamt sambýliskonu sinni hinn 8. september síðastliðinn, grunuð um stórfellt fíkniefnabrot. Þau hafa síðan þá setið í gæsluvarðhaldi. Parið er grunað um að hafa reynt að smygla allt að níutíu kílóum af MDMA og e-töflum hingað til lands, meðal annars í niðursuðudósum, varadekki bílsins og gaskútum. Um er að ræða eitt stærsta fíkniefnamál sem komið hefur upp hér á landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×